Milli mála - 2020, Page 27
Milli mála 12/2020 27
KRISTÍN INGVARSDÓTTIR
10.33112/millimala.12.1
spurningar hvers vegna hann hélt ótrauður til Japans þrátt fyrir
ástandið sem þar ríkti, og jafnframt hvernig vera megi að hann hafi
haft svo eindregna jákvæða mynd af Japan og Japönum á sama tíma
og umfjöllun um Japan hefur vafalítið verið lituð dökkum litum í
heimspressunni.
Hvað sem allri gagnrýni leið var Japan sannkallað ævintýraland í
augum Jóns og mögulega hefur honum hvergi verið jafn vel tekið og
í Japan. Það var alla vega upplifun hans sjálfs og hin umfangsmikla
umfjöllun um Jón og Nonnabækurnar í Japan rennir stoðum undir
þá upplifun hans. Tugir greina um Nonna birtust í japönskum prent-
miðlum og náði yfir fjölda ólíkra miðla. Þess er vert að geta að útgáfu-
starfsemi var mjög lífleg í Japan á þessum árum (líkt og nú), enda læsi
orðið næstum 90% meðal fullorðinna um 1930 með innleiðingu
skólaskyldu í kjölfar Meiji-endurreisnarinnar.39 Bókmenntir frá
þessum tíma hafa þó oft verið afskrifaðar í seinni tíð hvað varðar list-
rænt gildi og boðskap þar sem ritskoðun varð sífellt meira áberandi
eftir því sem leið á stríðsrekstur Japana. Að lokum var allt prentað
efni ítarlega ritskoðað, stundum svo kyrfilega að höfundar þekktu
vart eigin texta eftir meðferðina.40
Þegar Jón kom til Japans var honum ljóst að til stóð að kynna
hann og verk hans, og fyrstu greinarnar um hann birtust jafnvel áður
en hann kom til landsins. Mikilvægt er að skoða betur nokkra af
þeim lykileinstaklingum sem tóku á móti Jóni til að glöggva sig á
bakgrunni þeirra og tengingum við útgáfuheiminn í Japan. Strax á
hafnarbakkanum hitti Jón Þjóðverjann Rupert Eberle. Hann „hafði
áður starfað hjá Herder í Freiburg og rak síðar forlag og bókaverslun
í Japan, áður en hann varð lektor við háskólann. Hann var því öllum
hnútum kunnugur þegar kom að því að kynna og gefa út Nonna-
bækur í Japan“.41 Greinarhöfundi hefur ekki tekist að finna nánari
upplýsingar um Eberle en ítarlegar verður fjallað um japanskar út-
gáfur á bókum Nonna hér á eftir. Helsti gestgjafi Jóns í Japan var
forseti Sophia-háskólans, Hermann Heuvers. Eins og fram kemur í
Nonni í Japan og ævisögu Jóns42 fylgdi Heuvers Jóni og túlkaði fyrir
39 Jansen, Marius B., The Making of Modern Japan, bls. 570.
40 Kawana, Sari., „Reading Beyond the Lines …“, bls. 154.
41 Gunnar F. Guðmundsson, Pater Jón Sveinsson: Nonni, bls. 387.
42 Sama heimild.