Milli mála - 2020, Page 38
38 Milli mála 12/2020
ÆVINTÝRAEYJURNAR JAPAN OG ÍSLAND: UM JAPANSDVÖL NONNA, 1937–1938
10.33112/millimala.12.1
á öllum sviðum til að rækta þjóðarhollustu, ala upp góða þegna og
móta samfélagið. Hvernig skyldu Nonnabækurnar hafa rímað við
þennan veruleika hernaðar- og keisaraveldis? Fátt bendir til að jap-
önsku þýðingarnar á Nonnabókunum og öðrum textum eftir Nonna
hafi verið ritskoðaðar, og ætla má að boðskapurinn um hugrekki,
þrautseigju og ást á sínum nánustu, líkt og birtist í Nonnasögunum,
hafi þótt æskilegt veganesti fyrir japanska æsku (verðandi hermenn),
jafnvel þótt bræðurnir hafi heitið á „erlendan guð“ þegar líf þeirra lá
við. Nálægð Jóns og Nonna við hin þjóðernislegu verkefni sjást m.a.
glöggt í tímaritinu Dowa Kenkyu69, þar sem efnisyfirlitið báðum
megin við greinina um Jón fjallar um hvernig nýta megi ævintýri til
að efla þjóðernishyggju.
7. Nonnabækurnar sjálfar
Að lokum er ekki úr vegi að nefna hvað japönsku útgáfurnar á
Nonnabókunum sjálfum segja okkur um viðtökur verkanna í Japan,
bæði Nonnabókunum þremur sem gefnar voru út í tengslum við
Japansdvöl Jóns árin 1937–1938 og fleiri titlum sem fylgdu í kjöl-
farið.70 Eins og áður sagði var Þjóðverjinn Rupert Eberle lykilmaður
þegar kom að útgáfu fyrstu Nonnabókanna í Japan. Eberle hafði áður
unnið fyrir Herder, kristilega forlagið sem gaf út Nonnabækurnar í
Evrópu, og sambönd hans í japönskum útgáfuiðnaði, sem og reynsla
af bókaútgáfu hefur komið sér vel. Fyrstu bækurnar komu út hjá
litlum forlögum sem jafnvel virðast stofnuð sérstaklega í kringum
bækur Jóns. Það sem lengi hefur vakið furðu og forvitni greinarhöf-
undar er hvers vegna Nonnabækurnar voru ekki gefnar út hjá stærra
eða þekktara forlagi. Eins og komið hefur fram tókst fádæma vel að
kynna Jón sem heimsþekktan höfund og áhuginn á Jóni hlýtur að
hafa farið fram úr væntingum. Hefði ekki sæmt „H. C. Andersen
samtímans“ og „Mark Twain Evrópu“ að bækurnar væru gefnar út
69 Sjá sér í lagi árgang 17 blað 10 frá 1937, sem virðist sérstakt þemahefti um þetta efni.
70 Sjá titlana sem liggja til grundvallar fyrstu þremur Nonnabókunum á japönsku í Pater Jón
Sveinsson: Nonni eftir Gunnar F. Guðmundsson, bls. 491, nr. 103. Það er snúið að átta sig á jap-
önsku bókatitlunum þar sem þeir eru oft frjálslega þýddir og hvergi er hægt að nálgast allar jap-
önsku útgáfurnar af Nonnabókunum á einum stað. Skv. japönsku Nonnasýningunni frá 2008 voru
til alls 15 bækur á japönsku með sögum eftir Jón Sveinsson. Þær voru ekki nafngreindar en
líklega eru bæði endurútgáfur og safnrit meðtalin.