Milli mála - 2020, Page 125
Milli mála 12/2020 125
BIRNA ARNBJÖRNSDÓTTIR
10.33112/millimala.12.4
flóknari verkefni. Þannig eru nemendur til dæmis þjálfaðir í að átta
sig á tilgangi efnisgreina og hvers konar rökstuðningur styður tilgátu
þeirra. Tilgangur inngangs og niðurlags er kenndur sérstaklega.
Nemendur sameina síðan smám saman inngang, efnisgreinar og
niðurlag í heila ritgerð og fá æfingu í að skrifa sífellt flóknari texta.
Í námskeiðinu er byrjað á því að æfa nemendur í grunnatriðum
með því að láta þá skrifa texta sem þeir þekkja, s.s. frásögn eða
lýsingu. Áhersla í upphafi er lögð á að fá þá til að tjá sig á formlegu
ritmáli án þess að þurfa að byggja skrifin á heimildum, þ.e. finna sína
eigin rödd (e. authorial voice). Síðan vinna þeir verkefni eða skýrslu
sem byggð er á eigin rannsóknum án þess að styðjast við heimildir
frá öðrum, fá þjálfun í rannsóknaraðferðum og skilning á því hvernig
koma á eigin þekkingu og niðurstöðum á framfæri. Verkefnið býr
nemendur undir að leysa verkefni sem þeir munu síðar glíma við (e.
case based learning (CBL)) í sínum námsgreinum (Hall o.fl. 2016). Gerð
er krafa um að þeir geri frumrannsóknir, skipuleggi og greini upp-
lýsingar og skrifi skýrslu. Þannig þróa þeir með sér dýpri vitneskju
um ritun, þjálfa færni í að nota beinar tilvitnanir og endurrita orð
viðmælenda sinna (e. paraphrase). Að lokum er efniviður úr skýrslunni
settur í félagslegt samhengi með vísun í sérfræðinga. Nemendur hafa
þar með fengið þjálfun í ritun sem grundvölluð er á þeirra eigin skoð-
unum, frumrannsóknum og mati og vali á heimildum sem styðja við
hugmyndir þeirra.
Með þessari nálgun er áhersla lögð á að nemendur temji sér sjálf-
stæði í vinnubrögðum en þarfagreining hafði leitt í ljós að þrátt fyrir
allt að tíu ára nám í ensku beittu nemendur ekki þekkingu sinni á
hugtökum í rituninni sjálfri. Markmiðið var því að breyta þekkingu
nemenda á ritun í ritunarfærni, auka sjálfstæði þeirra í vinnu-
brögðum og þjálfa þá í að taka stjórnina í eigin námsferli með því að
umbreyta þekkingu í verkefnatengda hegðun (Zimmerman, 2013;
Holec, 1981). Þetta er gert með því að kenna nemendum námsað-
ferðir sem eiga við á hverju stigi ritunar – frá undirbúningi fyrir ritun
og þróun tilgátu til kerfisbundinnar endurritunar og prófarkalesturs
(Patricia Prinz og Birna Arnbjörnsdóttir, 2020). Notast er við stoðir
(e. scaffolding), skýr fyrirmæli og dæmi jafnframt því sem lestextum
er haldið í lágmarki til að auka vægi ritæfinga.