Milli mála - 2020, Page 142
142 Milli mála 12/2020
BÝSN OG FÁDÆMI Í TUNGUMÁLINU
10.33112/millimala.12.5
Þessi setning hefst á gervifrumlaginu það, sem er stundum kallað
„leppur“ enda eru setningar af þessum toga oft nefndar leppsetningar
(Höskuldur Þráinsson, 1999:194; sjá yfirlit hjá Höskuldi Þráinssyni,
2005:336 o.áfr, 2007:309 o.áfr).4 Á eftir leppnum kemur hjálparsögn
(hafa) og því næst raunverulegt frumlag setningarinnar, óákveðinn
nafnliður (einhverjir stúdentar) sem stendur hér á milli tveggja atviks-
orða (sennilega og neitunarinnar ekki). Andlagið (þessa bók) er svo á
milli aðalsagnarinnar (lesið) og enn eins atviksorðs (alveg), sem rekur
lestina í þessari setningu. Leppsetningar eru út af fyrir sig mjög
algengar í íslensku og eðlilegar í talmáli. Oft hefur þó verið amast
við þeim, m.a. í eldri málfræðibókum (Jakob Jóh. Smári, 1920:19,
Björn Guðfinnsson, 1943:8) og í leiðbeiningum um ritun í íslensku.
Þar er bent á að það í upphafi málsgreinar sé talmálslegt og betra að
ofnota það ekki í formlegu málsniði. Eins og kunnugt er gengur þó
oft illa að fá málhafa til að hlíta forskriftarreglum út í hörgul og það
á einnig við hér; í daglegu máli hikar fólk ekki við að byrja setningar
á leppnum það. Einkenni leppsetninga er að frumlagið sem vísar til
leppsins („leppsfélaginn“) verður að vera óákveðið (óákveðið fornafn
eins og einhverjir eða óákveðinn nafnliður eins og stúdentar, einhverjir
stúdentar eða jafnvel einhverjir stúdentarnir). Til sannindamerkis um
það er sú staðreynd að setningarnar í (3) eru miklu síðri en dæmið í
(2) og vafalaust að flestra dómi allsendis ótækar í íslensku; þær eru
því merktar með stjörnu eins og alsiða er að gera við ótæk dæmi í
setningafræði:
(3) a. *Það hafa sennilega stúdentarnir ekki lesið þessa bók alveg.
b. *Það hafa sennilega þeir ekki lesið þessa bók alveg.
Hins vegar er setningin í (2) rétt mynduð út frá þeim málfræði-
reglum sem gilda í íslensku nútímamáli enda þótt formgerð hennar
sé óvenjuleg að því er snertir afstöðu atviksorðanna til annarra
setningarliða. Ef atviksorðunum er sleppt kemur í ljós að setningin er
í raun ósköp blátt áfram eins og sjá má í dæmi (4).
4 Í eldri málfræðiritum er leppurinn það ýmist nefndur aukafrumlag (Jakob Jóh. Smári, 1920:18–
19, Björn Guðfinnsson, 1943:8) eða gervifrumlag (Halldór Ármann Sigurðsson, 1994:51,
Höskuldur Þráinsson, 1995:63).