Milli mála - 2020, Page 144
144 Milli mála 12/2020
BÝSN OG FÁDÆMI Í TUNGUMÁLINU
10.33112/millimala.12.5
„óvíst, ég er ekki viss um hvort ég get sagt þetta eða ekki“. Þegar
málfræðingur rannsakar setningagerð móðurmáls síns eru hæg
heimatökin þar sem hann getur beitt sjálfskoðun (e. introspection),
metið setningar sem hann myndar og borið eigið mat saman við
dóma annarra einstaklinga sem tala sama tungumál. Unnt er að afla
dóma frá málhöfum með því að spyrja þá beint um tiltekin atriði eða
að leggja fyrir þá skriflegar kannanir, t.d. í formi dæmasetninga. Enn
fremur er hægt að bera dómana saman við aðrar málheimildir, m.a.
gagnasöfn um ritmál og talmál, svonefndar málheildir (lat. corpus, ft.
corpora). Sjálfskoðun verður eðlilega ekki beitt nema upp að vissu
marki við mat á atriðum í öðrum málum en móðurmálinu þar sem
fáir hafa alveg jafngóð tök á öðru máli og sínu eigin. Þeim mun meira
er þar komið undir dómum málhafanna og upplýsingum úr annars
konar heimildum, t.d. málheildum, sem hægt er að leggja til grund-
vallar mállýsingunni.
Eins og dæmið í (2) að ofan sýnir kann tiltekin setningagerð að
vera tæk og þar með í samræmi við málfræði tiltekins tungumáls
þótt hún sé sárasjaldan notuð. Þetta er vandi sem allir sem stunda
rannsóknir í setningafræði eiga við að etja. Með nokkurri skólun,
hugkvæmni og þrautseigju ætti málfræðingur sem fæst við lifandi
mál þó að geta skorið úr um það hvort fyrirbærið sem hann rann-
sakar er tækt enda þótt það sé fátítt í málnotkun, eða hvort það er
hreinlega ótækt í málinu – þ.e. ekki hluti af málfræði tungumálsins
sem verið er að rannsaka. Ljóst er að besta aðferðin til að greina á
milli slíkra atriða er að skoða og bera saman dóma málhafa um þau.
Í málheildum, hversu ítarlegar sem þær eru, má alltaf gera ráð fyrir
því að ýmis fyrirbæri komi ekki fyrir af einskærri tilviljun, t.d. vegna
óútskýrðrar gloppu í gagnasafninu, fremur en að þau séu hreinlega
ekki til í tungumálinu.
Í lifandi tungumálum er fjöldi setninga ekki endanlegur heldur
geta eiginlegir málhafar myndað óendanlegan fjölda setninga, t.d.
með því að bæta sífellt nýjum aukasetningum við aðrar setningar,
sem eru þá „móðursetningar“ undirskipuðu setninganna. Þetta er
sýnt með tilvísunarsetningum í dæminu í (6).
(6) Þetta er kona sem á heima í borg sem er í landi sem er í
heimsálfu sem … o.s.frv.