Milli mála - 2020, Page 155
Milli mála 12/2020 155
ÞÓRHALLUR EYÞÓRSSON
10.33112/millimala.12.5
maðurinn líkar konuna
‘Manninum líkar við konuna.’
Þótt málfræðingar séu flestir á einu máli um að nútímaíslenska hafi
aukafallsfrumlög er setningafræðileg staða aukafallsnafnliða í fornís-
lensku umdeild. Ýmsir fræðimenn hafa haldið því fram að aukafalls-
liðirnir hafi verið frumlög að fornu, rétt eins og í nútímaíslensku.
Þessa stefnu má kalla „íslenska skólann“; fulltrúar hans eru m.a.
íslenskir málfræðingar eins og Eiríkur Rögnvaldsson (1991, 1996,
2005:612–613), Jóhanna Barðdal og Þórhallur Eyþórsson (2003) og
Jóhannes Gísli Jónsson (2018). Aðrir halda því fram að í fornmáli séu
þessir aukafallsnafnliðir ekki frumlög heldur andlög. Þetta mætti
kalla „norska skólann“ þar sem í framvarðarsveit hans eru einkum
norskir fræðimenn, t.d. Jan-Terje Faarlund (1980, 1990, 2001, 2004),
Kristian Emil Kristoffersen (1991, 1994), Endre Mørck (1992) og
John Ole Askedal (2001). Norski skólinn segir að orðið hafi breyting
í sögu íslensku og færeysku þar sem liðir sem voru upprunalega and-
lög voru endurtúlkaðir sem frumlög. Hins vegar telur íslenski
skólinn að ekki hafi orðið nein breyting í sögu íslensku (og færeysku)
að því er varðar aukafallsfrumlög.15
Vandinn er að það er erfitt að finna réttu setningagerðirnar sem
nauðsynlegar eru til að prófa málfræðihlutverk meintra aukafalls-
frumlaga í „dauðu“ tungumáli og í sumum tilvikum koma þær
raunar alls ekki fyrir í þeim textum sem varðveist hafa. Nauðsynlegt
er að fá úr því skorið hvort þessi skortur á dæmum af réttum toga sé
tilviljanakenndur eða kerfisbundinn. Eins og áður er getið eiga mál-
fræðingar (þ.m.t. setningafræðingar) sem fást við lifandi mál alla
jafna ekki við þennan vanda að etja (a.m.k. ekki á sambærilegan
hátt). Verkefni þeirra er því auðveldara vegna þess að þeir geta orðið
sér úti um þau dæmi sem máli skipta, ýmist með því að styðjast við
eigin máltilfinningu þegar þeir fjalla um móðurmál sitt eða með því
að biðja heimildarmenn að dæma hvort tiltekin setning sé tæk eða
ótæk. Sérstaklega mikilvægt er að biðja málhafa um neikvæða dóma
– um það sem þeir geta ekki sagt. Þeir sem fást við sögulega setn-
15 Sögufróðir lesendur taka eftir að nafngiftirnar „íslenski skólinn“ og „norski skólinn“ eru hér
notaðar á meðvitaðan hátt sem hliðstæður við samsvarandi heiti á stefnum sem eitt sinn voru
fyrirferðarmiklar í norrænum fornbókmenntum.