Milli mála - 2020, Blaðsíða 170
170 Milli mála 12/2020
GLUGGI Í AUSTURÁTT: ÞÝÐINGARSAGA ÍSLENSKRA OG KÍNVERSKRA BÓKMENNTA
10.33112/millimala.12.6
1. Tímabil fyrstu skrefa
Árið 2021 eru liðin 100 ár síðan Daodejing 《道德经》1 var fyrst
þýdd á íslensku undir titlinum Bókin um veginn og gefin út af Bóka-
verslun Guðmundar Gamalíelssonar í Reykjavík. Bræðurnir Jakob
Jóhannesson Smári og Yngvi Jóhannesson þýddu bókina aðallega
eftir danskri þýðingu Ernst Möller (útg. 1909) og enskri þýðingu
James Legge (útg. 1891).2
Hálfri öld síðar var bókin endurútgefin með formála eftir Halldór
Laxness en mörgum var kunnugt hve nóbelsskáldið var hrifið af
bókinni sem hann vitnaði margoft í. Í formála Halldórs greinir hann
frá æskuminningum um langar umræður þeirra Erlends Guðmunds-
sonar í Unuhúsi, Sigurðar Jónassonar og Þórbergs Þórðarsonar um
Daodejing sem þeir töldu auk sanskrítarritsins Bhagavad Ghita
merkustu rit heims. Halldór telur sennilegt að áhugi á guðspeki hér-
lendis hafi „orðið til að ljúka upp glugga í austurátt og draga þessar
bækur í sjónmál vina minna“.3
Bræðurnir Jakob og Yngvi, sem réðust í þýðingu verksins, voru
miklir tungumálamenn og Jakob lengi yfirkennari Menntaskólans í
Reykjavík auk þess sem hann sat í stjórn Sálarrannsóknarfélags Ís-
lands. Daodejing er stutt kver og fyrirliggjandi þýðingar með orð-
skýringum hafa án efa orðið bræðrunum hvatning til verksins en
ekkert kínverskt rit hafði áður verið gefið út á íslensku. Yngvi Jó-
hannesson getur þess að Guðmundur Hjaltason (1853–1919) hafi
verið þeim bræðrum fyrri til og þýtt Daodejing eftir þýskri útgáfu Fr.
W. Noack en sú þýðing hafi ekki komið út á prenti.4
Ritið hefur síðan verið þýtt á íslensku að minnsta kosti þrisvar.
Fyrst kom út þýðing Sörens Sörenssonar Tao Teh King eða Bókin um
dyggðina og veginn5 sem Helgiritaútgáfan gaf út 1942. Sören þýddi
1 Í stað skáletrunar eru titlar bóka og tímarita á kínversku auðkenndir með sérstökum tvöföldum
sviga.
2 Lao-tse, Bókin um veginn, Jakob Jóhannesson Smári og Yngvi Jóhannesson þýddu, Reykjavík:
Bókaverslun Guðmundar Gamalíelssonar, 1921, bls. 92–93.
3 Lao-tse, Bókin um veginn, Jakob Jóhannesson Smári og Yngvi Jóhannesson þýddu, Reykjavík:
Stafafell, 1971, formáli Halldórs Laxness bls. 5–6.
4 Yngvi Jóhannesson, „Tao Teh King, eða Bókin um dygðina og veginn”, Morgunblaðið, 16. desem-
ber 1942, bls. 4.
5 Lao-tse, Tao Teh King eða Bókin um dyggðina og veginn, Sören Sörenson, Reykjavík: Helgiritaútgáfan,
1942.