Milli mála - 2020, Page 226
226 Milli mála 12/2020
NOKKUR ORÐ UM LÝSÍAS
10.33112/millimala.12.8
Verjandinn Evfíletos hafði banað manni, Eratosþenesi, sem hafði
haldið á laun við konu Evfíletosar. Þetta manndráp var löglegt sam-
kvæmt fornum aþenskum lögum hafi Evfíletos staðið elskhuga konu
sinnar að verki. Aftur á móti var það ólögmætt hafi Evfíletos lagt á
ráðin um að bana Eratosþenesi. Ættingjar Eratosþenesar kærðu
Evfíletos og gáfu honum að sök að hafa lagt fyrir Eratosþenes snörur
og ráðið honum bana af yfirlögðu ráði. Sennilega hefur þessari fornu
lagaheimild ekki oft verið fylgt en oftast hefur eiginmaðurinn þegið
miskabætur af brotamanninum. Málsvörnin, sem Lýsías samdi fyrir
Evfíletos, er byggð á því að draga upp mynd af Evfíletosi sem ein-
földum og hrekklausum manni sem hefði engin fyrri kynni haft af
Eratosþenesi þessum. Því hafi hann brugðist við innan marka
laganna. Um Evfíletos er ekkert vitað annað en það sem fram kemur
í ræðunni. Var Eratosþenes sá hinn sami og verið hafði í hópi þrjá-
tíumenninganna; sá sem Lýsías talaði gegn í 12. ræðunni, Gegn
Eratosþenesi? Það er ekki vitað en fræðimenn hafa fært rök bæði með
og á móti.7
Stíll Lýsíasar er umfram allt skýr, einfaldur og laus við óþarfa
skrúðmælgi; hann er aldrei tilgerðarlegur. Lýsías leggur mikið upp
úr því að skýra frá málavöxtum. Á ákveðnum stað í ræðunni víkur
röksemdafærslan og ræðan verður að sögustund. Annað sem Lýsías
leggur mikla áherslu á og var frægur fyrir er persónusköpun
(ἠθοποιία). Trúverðugleiki ræðunnar og þar með áhrif hennar á
áheyrendur veltur á því að samræmi sé milli persónu ræðumannsins
og inntaks ræðunnar. Því þarf að bregða upp trúverðugri mynd af
ræðumanninum, haga máli og efnistökum í samræmi við hana,
helst án þess að eftir því sé tekið.8 Í þessu skarar Lýsías fram úr
öðrum. Til dæmis má bera saman verjandann Evfíletos í 1. ræðunni
og Mantiþeos í 16. ræðunni, Til varnar Mantiþeosi. Mantiþeos er
ungur aðalsmaður með óbilandi trú á sjálfum sér, eins ólíkur
Evfíletosi og hugsast getur; vinnusömum smábónda í útjaðri
Aþenuborgar sem hefur einungis gerst sekur um eftirlátssemi við
unga eiginkonu sína. Þannig lýsir hann að minnsta kosti sjálfum sér
í málsvörn sinni sem hér er þýdd.
7 Sjá Stephen Usher, Greek Oratory: Tradition and Originality, Oxford: Oxford University Press, 1999,
bls. 55 nmgr. 6.
8 Sbr. Aristóteles, Mælskulistin I.2 1156a1–20.