Milli mála - 2020, Page 229
Milli mála 12/2020 229
10.33112/millimala.12.8
Lýsías
Um morðið á Eratosþenesi1
1 Ég teldi miklu skipta, herrar mínir, að þið yrðuð mér slíkir dóm-arar um þetta mál sem þið væruð ykkur sjálfum ef þið hefðuð
mátt þola annað eins. Því ég veit vel að ef þið skylduð vera sömu
skoðunar um aðra menn og um ykkur sjálfa, þá væri enginn sem
ekki myndi reiðast vegna þess sem hefur átt sér stað. Þvert á móti
mynduð þið allir telja refsingarnar vægar til handa þeim sem stunda
svona lagað. 2 Og ekki væri þetta einungis metið svo af ykkur,
heldur um gervallt Hellas. Því varðandi þessa misgerð eina, jafnt í
lýðræði sem undir fámennisstjórn, hefur sami hefndarrétturinn verið
gefinn þeim sem eru minnimáttar gagnvart þeim sem mest mega
sín, þannig að hinn lítilsverðasti borgari njóti jafnræðis á við þann
besta. Þannig, herrar mínir, telja allir menn þennan ofstopa vera þann
skelfilegasta. 3 Um þyngd refsingarinnar tel ég ykkur alla hafa sömu
hugmynd og engan vera svo skeytingarlausan að hann telji að sýkna
beri þá sem valda slíkum verkum eða að þeir verðskuldi væga
refsingu. 4 Ég tel, herrar mínir, að mér beri að sýna fram á þetta: að
Eratosþenes hafi verið að fleka konuna mína og að hann spillti henni
og smánaði börnin mín og braut á mér sjálfum er hann kom inn á
heimili mitt.2 Auk þess ber mér að sýna að hvorki hafi verið nein
óvild milli mín og hans að þessari undanskilinni, né hafi ég gert
þetta fjárins vegna, til þess að ég gæti brotist úr fátækt og orðið
1 Um morðið á Eratosþenesi er 1. ræðan í ræðusafni Lýsíasar. Á frummálinu heitir hún ὑπὲρ τοῦ
Ἐρατοσθένους φόνου ἀπολογία. Hefðbundinni skiptingu textans í tölusettar efnisgreinar er
haldið til haga enda venjan að vísa til textans (t.d. Lýs. I.1). Svavari Hrafni Svavarssyni eru þakk-
aðar gagnlegar ábendingar.
2 Í málsgreininni skiptir Lýsías um tíð. Síðasta sögnin (ὕβρισεν, „braut á“) er í aoristus, þátíð sem
gefur til kynna aflokinn verknað. Sagnirnar tvær á undan (διέφθειρε, ᾔσχυνε, „spillti … smánaði“)
geta ýmist verið í aoristus eða imperfectum eins og fyrsta sögnin (ἐμοίχευεν, „var að fleka…“) en
það er þátíð sem gefur til kynna ólokinn verknað. Á því veltur einmitt málsvörn Evfíletosar að
honum takist að sannfæra áheyrendur um að hann hafi staðið Eratosþenes að verki.