Milli mála - 2020, Síða 244
244 Milli mála 12/2020
UM ÞÝÐINGUNA
10.33112/millimala.12.9
átt þar heima en eru þar ekki frá höfundarins hendi. Svipaðar upp-
fyllingar frá eigin brjósti koma fyrir allvíða í þýðingunni þar sem mig
brast hagmælsku til að fella eiginlega þýðingu að formi bragarins.
Lakast er það víst í 16. erindi þar sem einungis orðin „fordæmdir“,
„logum“ og „kalla mig“ eru raunveruleg þýðing, hitt allt hallæris-
lausnir í bragnauð.
Að þýða orðin dies illa virðist sem sagt óþarft – þegar aðeins er
horft á fyrsta erindið. En svo kemur í ljós að þau enduróma í erindum
9 (illa die – hér hefur latínan tíðarfall eins og ég notaði í upphafs-
orðunum) og 18 (aftur dies illa). Þessi endurtekning skilar sér aðeins
að hluta í þýðingu minni þar sem „hinsta dag“ í níunda erindi á að
kallast á við „hinst á láði“ í því fyrsta.
Að dies irae sé „dagur reiði“ er einfalt mál, orðrétt þýðing eins og
í Biblíunni. En „dagur bræði“ hjá Matthíasi, hvað þá „heiftardagur“
hjá mér, þar er öllu meira í lagt. „Bræði“ eða „heift“ táknar helst
stjórnlausa geðshræringu, síður þá réttmætu og yfirveguðu reiði sem
hæfa myndi almáttugum Guði. (Þó að í sjálfum Passíusálmunum
segi reyndar: „Drottins tími þá tekur af / tvímælin öll í bræði.“) Í
Biblíu 21. aldar er Sefanía (I, 18) látinn segja: „Á reiðidegi Drottins
og í heiftarbáli hans verður öllu landinu eytt.“ Hér heitir það „heift“
Guðs sem eldri þýðingar kalla „vandlætingu“, á latínu zelus. Síðar (III,
8) lætur Sefanía Drottin hóta konungsríkjum heims „að ausa yfir þau
reiði minni, allri minni logandi heift. Já, fyrir eldi bræði minnar mun
öll jörðin eyðast.“ Hér hefur latneska Biblían (Vulgata) indignatio og
furor, orð sem tákna a.m.k. ekkert jafnaðargeð, og er þá ekki fráleitt
að höfundur sálmsins hafi talið sams konar reiði birtast í þeim orðum
sem hann tók upp sem fyrstu ljóðlínu.
Látum þá útrætt um hana.
Í annarri hendingu segir hvað dagur reiðinnar gerir – „drekkir
jörð í logaflæði“ hjá Matthíasi – eða, hjá mér, hvað gerist þann dag
– „heimur ferst í sindurs flóði“. „Jörð“ eða „heimur“ er einfölduð
þýðing á lat. saec[u]lum, sem m.a. merkir ‘öld, tímabil’ en líka ‘tíminn
sjálfur’ og þar með ‘hið tímanlega, veröldin’. Sögnin, solvo, merkir
aðallega ‘leysa’ en líka ‘(um efni eða hluti) leysa sundur, leysa upp,
láta bráðna eða gufa upp’. Hin tímanlega veröld á þannig að leysast
sundur in favilla, þ.e. verða að ‘glóðum, neistum, heitri ösku eða
gjalli’ (m.a. notað um „ösku“ látins manns og þá átt við glóðina eftir