Milli mála - 2020, Page 281
Milli mála 12/2020 281
10.33112/millimala.12.12
Hólmfríður Garðarsdóttir
Háskóli Íslands
Um Delfinu Acosta1
Delfina Acosta fæddist í Asunción, höfuðborg Paragvæ, árið 1956. Hún er menntaður lyfjafræðingur en hafði áhuga á bók-
menntum frá unga aldri. Strax á unglingsárum var hún farin að taka
þátt í leshringjum um klassískar bókmenntir og var í kjölfarið hvött
til að taka þátt í ritsmiðjum og gefa út smásögur sínar og ljóð. Um
áratuga skeið hefur hún að auki skrifað vikulega pistla um bók-
menntir og listir fyrir ABC, eitt víðlesnasta dagblaðið í Paragvæ.
Helst hefur Acosta vakið athygli fyrir ljóðagerð og eftir hana
liggur álitlegt safn ljóðabóka. Meðal þeirra má nefna Ljóð á leiðinni
(Poesía itinerante, 1984), Allar þessar raddir, kona (Todas las voces, mujer,
1986), Kross kólibrífuglsins (La cruz del colibrí, 1993), Ballöður
fólksins (Romancero de mi pueblo, 2003) og Minn kæri (Querido mío,
2004). Síðasta ljóðabók hennar, Glaðlynda eldflugan (La luciérnaga
alegre), kom út árið 2016 og hefur enn beint kastljósi bókmenntarýna
að ljóðrænum stíl Acosta þar sem ástin og átakamál einkalífsins eru
til umfjöllunar.
Fyrir ljóðagerð sína hefur hún hlotið fjölmargar viðurkenningar.
Meðal þeirra má nefna Edward og Lily Tuck verðlaunin fyrir ljóða-
safnið Ljóð um ást og örvæntingu (Versos de amor y de locura, 2012) og
PEN-verðlaunin í Paragvæ fyrir ljóðasafnið Grundvallarstef (Versos
esenciales, 2001). Fyrir Ballöður fólksins hlotnuðust henni verðlaun
tileinkuð García Lorca og Roque Gaona verðlaunin fyrir ljóðasafnið
Minn kæri árið 2004.
1 Upplýsingar sóttar af http://portalguarani.com/299_delfina_acosta.html og af heimasíðu
Cervantesstofnunarinnar í Madríd. Úr sérsafni sem tileiknað er bókmenntum eftir konur frá
Paragvæ: http://www.cervantesvirtual.com/obra-visor/narradoras-paraguayas-antologia--0/html/
ff2ff49e-82b1-11df-acc7-002185ce6064_18.html#I_47_. Sótt í apríl 2020.