Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.2012, Side 157
Ritfregn
Helgi Hallgrímsson
Ritfregn
Tólf alda tryggð
Athugun á þróim stuðlasetningarfrá elsta þekktum norrænum
kveðskap fram til nútímans.
Höfundur: Ragnar Ingi Aðalsteinsson.
Utgefandi: Hugvísindastofnun, Háskóla Islands, Reykjavík,
2010.
Höfum við íslendingar einhverja sérstöðu meðal þjóða heimsins? Eitt er nokkuð víst, og það
er að hvergi er nú að fínna annarsstaðar í veröldinni jafn sérstakar og merkilegar bragreglur
og enn eru í heiðri hafðar í hefðbundinni ljóðagerð á íslandi. Þar er átt við stuðlasetninguna,
hina eldfornu arfleifð germanskra þjóða, sem ríkti á því málsvæði langt fram á miðaldir.
Það hefúr lengi verið á vitorði þeirra sem á einn eða annan hátt eru að fást við skáldskap,
að Ragnar Ingi Aðalsteinsson frá Vaðbrekku í Hrafnkelsdal hefur verið að grúska í brag-
fræði um áratuga skeið, og birst hafa ýmsar greinar og smárit um það efni frá hans hendi,
allt frá Bragfræði fyrir skóla 1987. Um aldamótin hóf hann nám í íslenskum fræðum og
skilaði meistaraprófsritgerð 2004, með titlinum Frá Braga til Steins, þar sem hann fjallar
um stuðlasetninguna.
Síðan hefur stuðlasetningin verið meginviðfangsefni Ragnars Inga, og árið 2010 birti
hann niðurstöður rannsókna sinna í 330 bls. bók með ofangreindum titli. Þar Qallar Ragnar
um helsta og lífseigasta einkenni íslenskrar kvæðahefðar í 1200 ár. Þar sem höfundur þess er
Austfirðingur í húð og hár, þykir mér ekki mega undir höfuð leggjast að kynna þetta merkisrit
fyrir lesendum Múlaþings, þó ég sé naumast til þess fær, því að ég hef enga sérþekkingu á
þessu sviði.
Ekki þarf lengi að fletta þessari bók til að fullvissa sig um að hér er á ferðinni fræðirit sem
ekki á sinn líka hérlendis. Höfundur hefúr „skimað“ drjúgan þverskurð af íslenskum skáldskap,
frá upphafí til vorra daga, nýtt tölvutæknina við úrvinnslu, og byggir bókina á þeirri rannsókn.
„í íslensku notum við orðið stuðlasetning eða stuðlun yfír það þegar sama eða sams konar
hljóð er endurtekið í upphafí orða, tvisvar eða oftar.“ (bls. 20) Þessi hljóð kallast Ijóðstafir.
Höfundur greinir á milli frjálsrar stuðlunar (allitteration) og reglubundinnar stuðlunar (stavrim,
Stabreim). Frjáls eða óregluleg stuðlun er algeng, bæði í kveðskap og óbundnum texta, en
reglubundin stuðlun hlítir ákveðnum reglum um það, hvaða ljóðstafir passa saman og hvemig
þeir eru staðsettir í braglínum. Meginreglan er að nota þrjá ljóðstafi, tvo í frumlínu hendingar,
sem sérstaklega kallast stuðlar, og einn í upphafi síðlínu, sem kallast höfuðstafur; allir verða
þeir að vera í áhersluatkvæðum. Þessi regla hefur gilt frá upphafí og var fyrst útskýrð í Eddu
Snorra Sturlusonar, um 1220. Dæmi má taka af þessari alkunnu vísu Kristjáns Fjallaskálds.
155