Tímarit lögfræðinga - 01.04.2013, Blaðsíða 52
0
og sölum. Þannig væri iðulega að finna í lánssamningum ákvæði
um lánsfjárhæð og vexti, útborgun lánsins til lántaka, með hvaða
hætti endurgreiðslur lánsins skyldu fara fram o.s.frv. Þá fylgdu
lánssamningum oft og tíðum ýmis fylgiskjöl t.d. um útborgun láns.
Af þessu leiddi að meira svigrúm væri til túlkunar lánssamninga en
í tilviki skuldabréfa og kaupleigusamninga.
Dómur Hæstaréttar í máli nr. 155/2011 er skýrt dæmi um það
hversu flókið það viðfangsefni getur verið að ákvarða hvort tiltekin
lánsskuldbinding falli undir gildissvið VI. kafla vxl. Fjórir af þeim
sjö hæstaréttardómurum, sem dæmdu í málinu nr. 155/2011, komust
að þeirri niðurstöðu að lánssamningurinn væri um lán í íslenskum
krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Minnihluti réttarins
komst hins vegar að gagnstæðri niðurstöðu og taldi að um lán í er-
lendum myntum væri að ræða.
Hrd. 155/2011 (Motormax). Í lánssamningi aðila kom fram að um væri að
ræða fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði kr. 150.000.000 nánar tilgreindra
erlendra mynta í tilteknum hlutföllum. Meðal gagna málsins var svonefnd
kaupnóta bankans þar sem getið var viðskipta með tilgreindar fjárhæðir
hinna erlendu mynta. Niðurstaða meirihluta Hæstaréttar var sú að um
hefði verið að ræða lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra
gjaldmiðla. Í forsendum meirihlutans kemur fram að eina tilgreiningin í
samningnum á fjárhæð lánsins hafi verið í íslenskum krónum en hvergi
hafi verið getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum
heldur aðeins hlutföll þeirra og viðmiðun við virði íslensku krónunnar á
tilteknum degi fyrir útborgun lánsins. Þá vísar meirihlutinn einnig til
ákvæðis 4.1. í lánssamningnum um heimild til að breyta gjaldmiðlum þar
sem glöggt kemur fram að mati meirihlutans að hinir erlendu gjaldmiðlar
hafi verið til viðmiðunar um höfuðstól skuldarinnar. Þá er ennfremur vís-
að til þess að ljóst hafi verið af grein 2.2. í lánssamningnum, þar sem lántaki
óskaði eftir að íslenskur tékkareikningur hans hjá bankanum yrði skuld-
færður fyrir afborgunum og vöxtum af láninu, að ætlun aðila hafi verið að
greiðslur á gjalddögum þess yrðu í íslenskum krónum. Báðir samnings-
aðilar skyldu því efna meginskyldur sínar samkvæmt lánssamningnum
með greiðslum í íslenskum krónum og gerðu það í raun. Að þessu virtu
var litið svo á að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum bundið við
gengi erlendra gjaldmiðla.
Líkt og ráða má af reifuninni hér að framan er niðurstaða meiri-
hluta Hæstaréttar, um að lánsskuldbindingin væri í íslenskum
krónum, byggð á því að lánsfjárhæðin hefði ekki verið tilgreind í
öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum, lánsféð hefði verið greitt
út í íslenskum krónum, afborganir átti jafnframt að inna þannig af
hendi, auk þess sem litið var til ákvæðis í lánssamningnum um
myntbreytingu.