Tímarit lögfræðinga - 01.04.2013, Blaðsíða 72
0
krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra
gjaldmiðla. Eins og rakið er í 2. kafla greinarinnar eru reglur 13. gr.
og 14. gr. vxl. ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. þeirra. Þrönga undantekn-
ingu er þó að finna í lokamálslið 2. gr. laga nr. 38/2001 þar sem kveð-
ið er á um að ávallt sé heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til
hagsbóta fyrir skuldara.
Í greininni er rakið að bannákvæði VI. kafla vxl. standa and-
spænis meginreglu íslensks réttar um samningsfrelsi. Bent er á að
slíkar lögbundnar hömlur á verðtryggingarmöguleikum hafa tíð-
kast um langa hríð hér á landi og almennt er viðurkennt að löggjaf-
inn hafi heimild til að setja samningsfrelsinu skorður með þessum
hætti. Þá er einnig rakið í greininni að því hefur verið borið við í
a.m.k. einu dómsmáli að reglur VI. kafla vxl. stangist á við megin-
reglu EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga. Slík sjónar-
mið hafa ekki hlotið hljómgrunn í Hæstarétti en fyrir liggur að Eftir-
litsstofnun EFTA hefur á hinn bóginn gefið frá sér tilmæli þar sem
þeirri skoðun er lýst að altækt bann við gengistryggingu útlána
brjóti í bága við 40. gr. EES-samningsins, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993
um Evrópska efnahagssvæðið.
Þungamiðja greinarinnar er í 4. kafla þar sem finna má umfjöll-
un um hugtakið „lánsfé í íslenskum krónum“. Varðandi hugtakið
„lánsfé“ er í greininni sjónum einkum beint að svonefndum eigna-
leigusamningum sem valdið hafa deilum enda svipar þeim um
margt til lánssamninga fremur en leigusamninga. Í því skyni að
freista þess að varpa ljósi á raunverulegt eðli eignaleigusamninga er
grein gerð fyrir þeim lagaákvæðum sem gilda og gilt hafa í íslensk-
um rétti um slíka samninga auk þess sem raktir eru dómar Hæsta-
réttar, héraðsdómar og úrskurðir úrskurðarnefndar um viðskipti
við fjármálafyrirtæki þar sem reynt hefur á álitaefni er lúta að eðli
eignaleigusamninga. Umfjöllun greinarinnar um það hvenær lán
teljist vera í íslenskum krónum eða erlendri mynt eða myntum er
skipt í tvennt. Annars vegar er fjallað um réttarstöðu einstaklinga,
sem falla undir lög nr. 151/2010 sem m.a. breyttu lögum nr. 38/2001
um vexti og verðtryggingu, og hins vegar stöðu lögaðila og þeirra
lánsskuldbindinga einstaklinga sem falla ekki undir lögin. Í tilviki
hinna síðarnefndu eru reifaðir þeir dómar Hæstaréttar þar sem
reynt hefur á skýringu framangreindra hugtaka. Í lok kaflans er svo
að finna samantekt og hugleiðingar höfundar um fordæmisgildi
dómanna. Þar kemur m.a. fram að við mat á því hvort skuldbinding
teljist vera í íslenskum krónum eða erlendri mynt eða myntum lítur
Hæstiréttur fyrst og fremst til þess hvernig lánsfjárhæð er tilgreind
í viðkomandi lánssamningi og þess hvernig samningsaðilar, lán-
veitandi og lántaki, skyldu efna meginsskyldur sínar samkvæmt