Tímarit lögfræðinga - 01.04.2013, Blaðsíða 80
8
Annað sjónarhorn á það hvort sjálfstætt réttarsvið hafi orðið til
er félagsfræðilegt og lýsandi, en tengist þó fyrra sjónarhorninu náið.
Þá er lögð áhersla á mælikvarða eins og þá hvort fræðigreinin er
almennt kennd við háskóla, hvort til eru fræðatímarit og fræðafélög
helguð fræðigreininni og jafnvel hvort í háskólum hafi verið stofnað
til sérgreindra akademískra starfa sem helguð séu réttarsviðinu.
Fræðimenn sem fjallað hafa um það hvort heilbrigðisréttur sé sjálf-
stætt réttarsvið styðjast gjarnan einnig við þetta sjónarhorn.6
3. VIÐFANGSEFNI HEILBRIGÐISRÉTTAR
3.1 Stutt sögudrög
Sjúkdómar og heilsutengd málefni hafa ávallt verið hluti af mann-
legri tilvist, en á síðari árum hefur samfélagsþróunin í Evrópu verið
í þá átt að opinbert vald hefur í síauknum mæli látið sig varða mál-
efni tengd heilsu, lækningum og starfrækslu heilbrigðisþjónustu. Á Norðurlöndum breyttist þannig réttarsamband sem í upphafi var
einfalt tvíhliða einkaréttarlegt samningssamband á milli læknis eða
ljósmóður og sjúklings9 í þríhliða samband þar sem heilbrigð-
isstarfsmaðurinn var í vinnuréttarlegu réttarsambandi við heil-
brigðisstofnun, þar sem sjúklingurinn var í stjórnsýsluréttarlegu
réttarsambandi við heilbrigðisstofnunina en á milli sjúklings og
heilbrigðisstarfsmanns voru einungis óbeinar leifar af hinu upp-
haflega samningssambandi.10 Þessi réttarþróun var nátengd þróun
hins norræna velferðarsamfélags,11 en við hana myndaðist samt
ákveðið lagalegt tómarúm varðandi réttaröryggi sjúklinga. Efnis-
reglur stjórnsýslulaga eiga einungis við um hreinar stjórnvalds-
ákvarðanir, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1993, en réttarstaðan varðandi
þjónustustarfsemi er mun óljósari. Þá er efnissvið stjórnsýsluréttar-
6 Sjá t.d. Sjef Grevers: „Health Law in Europe: From the Present to the Future“. European
Journal of Health Law 2008, bls. 261-272, á bls. 265; Henry T. Greely: „Some Thoughts on
Academic Health Law“. Wake Forest Law Review 2006, bls. 393-396 og Mette Hartlev: „The
raison d‘être of Nordic Health Law“. Í ritinu Elisabeth Rynning og Mette Hartlev (ritstj.),
Nordic Health Law in a European Context – Welfare State Perspectives on Patients‘ Rights and
Biomedicine, Liber og Martinus Nijhoff, Malmö/Leiden 2011, bls. 49-66, á bls. 49.
7 Ítarlega verður fjallað um þróun íslensks heilbrigðisréttar í síðari greininni sem nefnast
mun „Íslenskur heilbrigðisréttur II – þróun, meginreglur og grundvallarkenningar“.
8 Sjef Grevers: „Health Law in Europe: From the Present to the Future“, bls. 264.
9 Hugtakið sjúklingur nær yfir alla notendur heilbrigðisþjónustu, sbr. 2. gr. laga um rétt-
indi sjúklinga nr. 74/1997.
10 Asbjørn Kjønstad: Helserett. 2. útg., Gyldendal, Osló 2007, bls. 28-30.
11 Stundum eru heilbrigðisréttur, vinnuréttur og almannatryggingaréttur saman kallaðir
velferðarréttur (d. velfærdsret), sjá t.d. Kirsten Ketscher: Socialret. 3. útg., Thomson, Kaup-
mannahöfn 2008, bls. 23. Til samanburðar má benda á að í Bandaríkjunum eru einkarétt-
arlegar markaðskenningar aftur á móti meira undirliggjandi í heilbrigðisrétti, sbr. t.d. Peter
D. Jacobsen: „Health Law 2005: An Agenda“. Journal of Law, Medicine and Ethics 2005, bls.
725-738.