Tímarit lögfræðinga - 01.04.2013, Blaðsíða 43
greind í íslenskum krónum. Í öðru lagi að kaupverð samningsand-
lags hafi verið tilgreint í íslenskum krónum. Í þriðja lagi að mán-
aðarlegar afborganir hafi verið tilgreindar í íslenskum krónum. Í
fjórða lagi að samningurinn sjálfur hafi kveðið á um það berum orð-
um að íslensk fjárhæð hverrar afborgunar skyldi breytast eftir gengi
á þeim erlendu myntum sem mið var tekið af. Í fimmta lagi að tekið
er fram í yfirskrift samninganna að þeir séu gengistryggðir.
Í kjölfar dómanna vöknuðu fjölmörg álitaefni um fordæmisgildi
málanna og sitt sýndist hverjum í því efni. Af hálfu fjármálafyrir-
tækjanna var t.a.m. á það bent að þeir samningar, sem um hafi verið
deilt í málunum, hafi verið til skamms tíma, annars vegar sjö ára og
hins vegar fjögurra ára, og því óvíst að sama niðurstaða yrði um lán
til lengri tíma. Þá var einnig á það bent að aðilar málanna hafi í báð-
um tilvikum verið einstaklingar en ekki lögaðilar og því óvíst hvort
dómarnir hefðu fordæmisgildi hvað lögaðila varðar. Þeir sem voru
á öndverðum meiði bentu hins vegar á að ekkert í dómunum gæfi
til kynna að niðurstaðan kynni að hafa orðið önnur þó að um lang-
tímalán hefði verið að ræða eða að lögaðili hefði átt í hlut. Dómarn-
ir hefðu því víðtækt fordæmisgildi og tækju til allra tegunda lána
óháð því hverjir væru aðilar að samningi. Þá fór enn fremur fram
mikil umræða á opinberum vettvangi um það álitaefni hvort og þá
hvaða þýðingu þessi niðurstaða hefði varðandi vaxtakjör samninga
er innihéldu ólögmæt gengistryggingarákvæði.
Þá liggur fyrir að opinberir eftirlitsaðilar á fjármálamarkaði
höfðu áhyggjur af áhrifum dómanna á stöðugleika íslenska fjár-
málakerfisins. Það ber skýran vott um það viðkvæma ástand sem
skapaðist í kjölfar dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010
að þann 30. júní 2010 sáu Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands
sig knúin til að gefa frá sér sameiginleg tilmæli vegna óskuldbind-
andi gengistryggingarákvæða.63 Í tilmælunum, sem ekki eru laga-
lega bindandi, kemur m.a. fram að á meðan ekki hafi verið skorið úr
um umfang og lánakjör þeirra samninga, sem dómarnir ná yfir, sé
sérstaklega mikilvægt að afla áreiðanlegra upplýsinga, skapa festu
í viðskiptum á fjármálamarkaði og stuðla að virku og öruggu fjár-
málakerfi. Í því ljósi var þeim tilmælum m.a. beint til fjármálafyrir-
63 Í svarbréfi Seðlabanka Íslands til umboðsmanns Alþingis, dags. 23. júlí 2010, í tilefni af
kvörtun sem embættinu barst vegna tilmælanna, kemur m.a. fram það álit Seðlabankans að
með tilmælunum hafi verið lögð til leið út úr miklum hremmingum sem gætu mögulega
teflt fjármálastöðugleika þjóðarinnar í mikla tvísýnu. Bréfið er aðgengilegt á vefslóðinni
http://www.sedlabanki.is. Í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins til umboðsmanns Alþingis, dags.
23. júlí 2010, kemur m.a. fram að ljóst hafi verið að hættuástand hafði skapast á íslenskum
fjármálamarkaði sem til þess var fallið að tefla fjármálastöðugleika í tvísýnu. Fall eins fjár-
málafyrirtækis gæti haft keðjuverkandi áhrif og leitt til hruns fjármálamarkaðarins eða ein-
stakra hluta hans. Afleiðingarnar gætu því verið alvarlegar fyrir hagkerfið í heild sinni.
Bréfið er aðgengilegt á vefslóðinni http://www.fme.is.