Tímarit lögfræðinga - 01.04.2013, Blaðsíða 81
ins bundið við málsmeðferðarreglur og tilteknar efnisreglur sem ná
ekki yfir öll þau sérstæðu álitaefni sem rísa við veitingu heilbrigðis-
þjónustu, s.s. varðandi sjálfsákvörðunarrétt sjúklings, trúnað o.fl. Á
sama tíma var hinn einkaréttarlegi samningur læknis og sjúklings
að mestu horfinn út úr myndinni og sjúklingi því aðeins takmörkuð
vernd í þeim leifum af samningsskyldum læknis sem birtust í
skaðabótaréttarlegri starfsábyrgð þeirra. Má því segja að hvorki
hinn opinberi réttur (stjórnsýsluréttur og refsiréttur) né einkarétt-
urinn (samningaréttur og skaðabótaréttur) hafi veitt sjúklingum
nægjanlega réttarvernd.12 Réttarþróun brást við þessu á þann hátt
að þessi þríhliða mynd var fyllt nánar með heildstæðum lagabálk-
um sem útfærðu réttarstöðu allra viðkomandi með ítarlegum hætti,
m.a. í löggjöf um réttindi og skyldur hinna ýmsu starfsstétta í heil-
brigðisþjónustu, sbr. nú lög um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012,
lögum um heilbrigðisþjónustu, sbr. nú lög nr. 40/2007, lögum um
réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og lögum um sjúklingatryggingu nr.
111/2000.
Norrænn heilbrigðisréttur byggir að grunnstofni til á hugmynd-
inni um velferðarsamfélagið en það er sameiginlegt einkenni hans
að lögð er áhersla á jafnan og almennan aðgang allra að heilbrigð-
isþjónustu sem er fjármögnuð af hinu opinbera.13 Á síðari árum hef-
ur einkaréttarlegur rekstur þó aukist mjög á öllum Norðurlönd-
unum, bæði þannig að einkaaðilar veita þjónustu sem eftir sem áður
er fjármögnuð af hinu opinbera (einkarekstur), en einnig þannig að
heilbrigðisþjónusta er veitt utan við hið opinbera heilbrigðiskerfi
(einkavæðing).14 Eitt einkenna þessa sviðs mannlegs lífs er einnig
það að þekkingarþróun á sviði heilbrigðisvísinda hefur verið afar
hröð, einkum frá því undir lok 20. aldar. Ný tækni og nýjar aðferðir
sem á stundum snerta grundvallarspurningar um mannlega tilvist
(tæknifrjóvgun, stofnfrumulækningar, klónun o.s.frv.) kalla á reglu-
bindingu.15 Bæði er það praktískt úrlausnarefni hvort veita beri til-
tekna þjónustu á kostnað ríkisins þegar nýir möguleikar opnast, en
12 Asbjørn Kjønstad: Helserett, bls. 30.
13 Mette Hartlev: „The raison d‘être of Nordic Health Law“, bls. 66.
14 Elisabeth Rynning, Oddný Mjöll Arnardóttir, Mette Hartlev, Henriette Sinding-Aasen
og Sirpa Soini: „Recent Developments in Nordic Health Law“. European Journal of Health
Law 2010, bls. 1-16, á bls. 4 (Danmörk), 6 (Finnland), 8 (Ísland), 11 (Noregur) og 13 (Sví-
þjóð). Samkvæmt óbirtum rannsóknargögnum sananburðarrannsóknar sem liggur til
grundvallar grein Mette Hartlev: „The raison d‘être of Nordic Health Law“ (gögnin eru
aðgengileg hjá höfundi samkvæmt beiðni) er í Danmörku og Noregi t.d. í auknum mæli
hægt að kaupa heilbrigðisþjónustutryggingar á einkamarkaði sem getur haft þau áhrif að
þeir sem njóta slíkra trygginga hafi greiðari aðgang að heilbrigðisþjónustu en aðrir. Í Sví-
þjóð hafa verið sett sérstök lög sem tryggja sjúklingum frjálst val á milli einkarekinna og
opinberra veitenda grunnheilbrigðisþjónustu og annarrar velferðarþjónustu, sjá Lagen
(2008:962) om valfrihetssystem.
15 Sjef Grevers: „Health Law in Europe: From the Present to the Future“, bls. 264.