Tímarit lögfræðinga - 01.04.2013, Blaðsíða 11
2. MÖGULEIKAR TIL VERÐTRYGGINGAR ERU TÆMANDI
TALDIR Í VI. KAFLA LAGA NR. 38/2001
2.1 Meginregla VI. kafla laga nr. 38/2001
Verðtrygging sparifjár og lánsfjár var fyrst heimiluð hér á landi árið
1979 með setningu laga nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála
o.fl.6 Þó að hugtakið verðtrygging komi fyrir í lögum hefur það
aldrei verið skilgreint efnislega í lagatexta og verður því að miða
við að sérfræðileg merking hugtaksins falli saman við lagalega
merkingu. Samkvæmt því er með verðtryggingu átt við það þegar
verðgildi peninga er tengt við einhvers konar vísitölu eða gengi. Með hugtakinu verðtrygging í VI. kafla vxl. er átt við breytingu í
hlutfalli við innlenda verðvísitölu.
Líkt og áður er rakið öðluðust vxl. gildi hér á landi hinn 1. júlí
2001. Lögin, sem leystu af hólmi vaxtalög nr. 25/1987 með síðari
breytingum, fólu í sér töluverðar breytingar á sviði vaxtamála.9 Sú
breyting, sem er umfjöllunarefni þessarar greinar, varðar VI. kafla
vxl. sem fjallar um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Breytingin
fól það í sér að við gildistöku laganna varð eini lögmæti grundvöll-
ur verðtryggingar sparifjár og lánsfjár í íslenskum krónum vísitala
neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum, sem
um vísitöluna gilda, og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði, sbr. 1.
mgr. 14. gr. laganna, og hlutabréfavísitala, innlend eða erlend, eða
safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi,
sbr. 2. mgr. 14. gr. sömu laga.
Í þessu fólst að heimildir til að binda skuldbindingar í íslensk-
um krónum við gengi erlendra gjaldmiðla voru felldar niður. Í
greinargerð með frumvarpi til laga nr. 38/2001 birtist vilji löggjafans
í þessum efnum með afdráttarlausum hætti. Í almennum athuga-
semdum í frumvarpinu segir m.a. að þær breytingar séu gerðar á
verðtryggingarkafla vaxtalaga að: „[...] heimildir til að binda skuld-
bindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla eru
felldar niður“.10 Þessi skilningur er ítrekaður í athugasemdum við
6 Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 13/1979 um stjórn efnahags-
mála o.fl. kemur fram að hugtakið verðtrygging sé notað í víðri merkingu og eigi við um
hvers konar tilvik þar sem um er að ræða að greiðsla eða fullnæging fjárkröfu er tengd
breytingu á verðvísitölu og gengi gjaldeyris þegar það á við í endurlánum eða annarri við-
miðun. Alþt. 1978-1979, A-deild, þskj. 453 – 230. mál, bls. 1659.
7 Sjá nánar Eyvindur G. Gunnarsson: „Um gengistryggð lán og verðtryggingu“, bls. 317-
318.
8 Sjá t.d. Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Eyvindur G. Gunnarsson: Kröfuréttur
II – vanefndaúrræði. Reykjavík 2011, bls. 422.
9 Almennt um þessar breytingar vísast til greinar Eyvindar G. Gunnarssonar: „Megin-
atriði laga um vexti og verðtryggingu“ í ritinu Afmælisrit Jónatans Þórmundssonar, Reykja-
vík 2007, bls. 141-191.
10 Alþt. 2000-2001, A-deild, þskj. 872 – 566. mál, bls. 3677.