Tímarit lögfræðinga - 01.04.2013, Blaðsíða 70
8
réttar eins og áður hefur verið rakið. Þó er ljóst að þessi atriði hafa
einkum þýðingu við mat á eðli skuldbindinga þar sem lánsfjárhæð
er tilgreind sem jafnvirði tiltekins fjölda íslenskra króna er skiptast
skuli eftir eftir ákveðnum hlutföllum í tvær eða fleiri erlendar mynt-
ir. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar má ráða að þessi atriði geta
aldrei ein og sér leitt til þeirrar niðurstöðu að lán sé eftir atvikum í
íslenskum krónum eða erlendri mynt eða myntum, heldur hefur
iðulega verið vísað til þeirra til stuðnings niðurstöðu um eðli skuld-
bindingar sem fengin er með heildarmati á efni og framkvæmd við-
komandi samnings. Eðli máls samkvæmt hafa þau hins vegar aukið
vægi við matið ef öll atriðin veita vísbendingu um hið sama.
5.3 Önnur atriði sem þýðingu kunna að hafa við mat á eðli lánsskuld-
bindingar
Við mat á eðli lánsskuldbindingar hefur Hæstiréttur einnig vísað til
annarra atriða en skilmála þess láns, sem um ræðir, og þess hvernig
samningurinn var framkvæmdur.
Þannig hefur rétturinn talið að orðalag, hugtakanotkun og efni
fylgiskjala með lánsskuldbindingu geti gefið vísbendingar um eðli
lánsins. Bæði getur verið um að ræða skjöl sem orðið hafa til í að-
draganda og í tengslum við viðkomandi lánveitingu eins og t.d.
„kaupnótur“, „gjaldeyrispantanir“ eða „útborgunarbeiðnir“ og/eða
skjöl sem orðið hafa til á samningstíma, t.d. skilmálabreytingar eða
útreikningar fjármálafyrirtækis á gjaldmiðlum um hver mánaða-
mót, sbr. t.d. mál nr. 524/2011 og 332/2012. Hæstiréttur hefur einnig í ákveðnum tilvikum vísað til huglæg-
rar afstöðu samningsaðila við samningsgerð, þ.e.a.s. hvort vilji lán-
taka hafi staðið til þess að taka lán í íslenskum krónum eða erlendri
mynt eða myntum, sbr. mál nr. 50/2012. Þá hefur rétturinn einnig
vísað til þess að við skýringu á texta lánssamnings beri að hafa í
huga meginreglu íslensks réttar um frelsi manna til að bindast
skuldbindingum með samningum, sem telja verður gilda nema sýnt
sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lög-
um, sbr. mál nr. 3/2012. Eins og áður hefur verið nefnt eru hins vegar
skiptar skoðanir innan réttarins um þýðingu og vægi þessara atriða
við matið.
Að mati höfundar er rétt að gjalda varhug við því að láta slík gögn hafa mikið vægi við
matið. Hafa ber í huga að fylgigögnin eru nær undantekningarlaust útbúin að frumkvæði
viðkomandi lánastofnunar án aðkomu eða beiðni frá lántaka. Þó að skjölin kunni að bera
með sér að gjaldeyrisviðskipti hafi átt sér stað er staðreyndin yfirleitt sú að lántakar hafa
ekki haft nein afskipti af hinum ætluðu gjaldeyrisviðskiptum. Ef slík gögn eru fyrir hendi
geta þau hins vegar verið til stuðnings niðurstöðu um að lán sé eftir atvikum í íslenskum
krónum eða erlendri mynt sem fengin er með vísan til þeirra grundvallaratriða sem ávallt
ber að líta til við úrlausn um það hvers eðlis viðkomandi skuldbinding er.