Tíðindi Prestafélags hins forna Hólastiftis - 01.01.1975, Blaðsíða 19
KIRKJUSAGA
22
allri áhöfn að stökkva frá borði og reyna að bjarga sér á
fljótandi reköldum gegnum boðana upp í fjöru.
En lítil karlmennska væri það og enginn drengskapur af
oss, sem horfum aftur úr fjarska, að ásaka þá mjög, sem
töldu sig knúða til að grípa til slíkra ráða. Biskupsstólar
báðir voru aðfram komnir. Saga þeirra beggja síðustu ára-
tugi fyrir endalokin er hrakfalla- og hörmungasaga. Hinir
mestu skörungar í umsýslu og útsjónarsemi gátu ekki hald-
ið þeim á kili í því illæri, sem yfir landið gekk og með þá
stjórnarfarslegu aðstöðu, sem þjóðin átti við að búa.
Vér erum vanir því að horfa með aðdáun til þeirra and-
legu höfðingja, sem prýddu þennan stað meðan hann var
að rísa og þegar hann stóð með mestum ytri blóma. Það er
að sjálfsögðu maklegt og rétt. En mér verður einnig og ekki
síður starsýnt á þá fyrirmenn, sem háðu hér sína vonlitlu
baráttu, þegar allt riðaði til falls. Þeir komu -hingað sæmi-
lega efnaðir. Þeir dóu örsnauðir. Hver af öðrum misstu
þeir heilsuna. Gísli biskup Magnússon, sem ugglaust hefur
verið með hinum meiri atkvæðamönnum, sem sátu hér að
stóli, var að upplagi og framan af ævi hraustmenni. En
hann hafði ekki setið hér lengi, þegar hann tók að kenna
vanheilsu, einkum fótaveiki, „sem ég hygg“, segir hann,
„orsakast hafa af langsömum kulda, ég hef mátt útstanda í
kofum þeim, ég hef hér í logerað, réttara sagt kvalizt".
Eftirmaður hans, Jón Teitsson, lifði hér aðeins eitt ár. Síð-
an var hér biskupslaust í 3 ár, enda vandfundnir menn, sem
fengjust til þess að setjast hér undir stýri. Loks gerðist Árni
Þórarinsson til þess, hinn mesti forsjár- og framkvæmda-
maður. Hann tók við embætti 1784, móðuharðindaárið, og
svo fór um hagi hans, að haustið eftir 1785, voru 15 kýr
fallnar á biskupsbúinu, 9 tórðu nytjarýrar, allt sauðfé var
dautt, 340 fjár alls, 4 hross lifðu af 60. Þá neyddist Hóla-
biskup til þess að panta kjöt, smjör og tólg frá Kaupmanna-
höfn til þess að fleyta fram heimili sínu.
Eigi að síður tókst Árna biskupi að rétta við hag stólsins