Tíðindi Prestafélags hins forna Hólastiftis - 01.01.1975, Blaðsíða 23
KIRKJUSAGA
26
markmið, sem Guð hefur látið staðina báða bíða eftir í
þágu síns ríkis á nýrri tíð.
Vér höldum hátíðir á helgum stöðum til þess að ganga á
vit þeirra viðburða, sem að sönnu eru að baki í tíma en um
áhrif í sífelldri nánd. Sagan, tiltekið kirkjusagan, er ekki
rykfallnir annálar, heldur arfleifð til lífsfrjóvgunar.
Að hagnýta sér þá arfleifð er ekki fólgið í því að stara um
öxl. Þjóð og kirkja gengur aldrei aftur á bak í sín eigin spor,
það er ekki leiðin til þess að finna sjálfan sig eða sækja sér
þrótt í lindir sögu sinnar. Engin fortíð vaknar til raunhæfs
lífs þó að reynt sé að setja hana á svið að nýju. Það eitt fæð-
ist til lífs, sem lífið sjálft kallar á og nútíð krefst. Það er
ekki að virða fortíðina, heldur að misskilja hana og mis-
þyrma hlutverki sögunnar að ætla sér að þvinga rás lífsins
inn í farvegu, sem horfnar aðstæður hafa mótað til sinna
þarfa.
Þær fimmtíu reiðgötur, sem lágu hlið við hlið heim að
Hólum, eru grónar, og þær verða aldrei framar f þjónustu
lífsins. Leiðin fram verður farin á öðrum vegum en þeim,
sem fortíðin hefur troðið. Spor feðranna eru jafnhelg fyrir
því og þeirra gömlu götur engu síður dýrmæt og holl minn-
ing, hvatning og vakning.
íslenzk þjóð og íslenzk kirkja eiga alla hluti saman. Svo
hefur verið hingað til. En hins er ekki að dyljast, að kirkj-
an hlýtur að vera þess minnug, að hún á í sérstökum skiln-
ingi þá staði, þar sem merki hennar var hæst við hún í ald-
anna rás. Hólar voru kirkjunni gefnir í öndverðu, staður-
inn sjálfur, þótt síðar væru seldir og andvirðið hirt í kon-
ungssjóð. Kirkjan á þær minningar, sem lyfta þessum stað
yfir aðra.
En kirkjan gerir ekki eignartilkall til eins eða neins, nema
til þess að skila því aftur með ávöxtum þess anda, sem hún
er kvödd til að þjóna. Hólar eru kirkjunni ímynd þess, að
Kristur hefur markað þetta land undir sitt góða vald. Og
þess vegna hlýtur hún að binda vonir við þennan stað, von-