Tíðindi Prestafélags hins forna Hólastiftis - 01.01.1975, Page 56
59
MENNTAMÁL
þessu sviði. Stjórn skólasjóðsins, sem er stjórn Prestafélags
Hólastiftis, hefir veitt lán úr sjóðnum í þessu skyni, en á
miklu veltur, að hægt verði að fá heitt vatn til Hóla. Þá
hefir stjórn prestafélagsins einnig skrifað Orkustofnun og
óskað eftir athugun á heitu vatni í Hjaltadal og liðsinni
við hitaveituna.
Tveir menn úr leikmannastétt hafa hvatt sér hljóðs um
endurreisn Hólastóls og stofnun skóla í lýðháskólaformi
á Hólum. Það eru þeir Snorri Sigfússon fyrrv. námsstjóri
og þjóðkunnur hugsjónamaður og skagfirski bóndinn Gísli
Magnússon í Eyhildarholti í Skagafirði.
Hafa þeir lagt fram fjárupphæð í bankabók í Landsbank-
anum á Akureyri og hvetja þeir aðra til að ljá þessu máli
stuðning og styrkja sjóðinn með fjárframlögum.
Það, sem hæst ber í sögu Hóla og mesta blessun hefir fært
íslensku þjóðinni er prentun og útgáfa Guðbrandsbiblíu
1584. Nú eru nærfelt fjórar aldir síðan. Eðlilegt væri, að
Biblían og lærdómur á þeim vettvangi yrði höfuðgrein hins
nýja skóla, þ. e. a. s. að hann yrði eins konar Biblíuskóli.
Það hæfði staðnum vel og slíkri skólastofnun, að hafa biblíu-
nám höfuðnámsgrein skólans.
Ekki er fráleitt að láta sér til hugar koma að hefja skóla-
starfið með sumarnámskeiðum, þar sem lögð yrði áhersla á
biblíunám og boðun trúarinnar undir leiðsögn lærifeðr-
anna. Ætla mætti, að ýmsum þætti kærkomið að eiga dvöl
á slíkum stuttum námskeiðum í sumarfríum sínum.
Orðið skóli merkir kyrrð og næði. Það lýsir eðli hans.
Fátt er nú betra ungu fólki, sem býr við síaukinn hraða og
spennu nútímans en að komast minnsta kosti um tíma í
kyrrð og næði hinna íslenzku dala og friðhelgu staða og
íhuga þar gildi lífsins, lögmál þess og tilgang. Þó að smátt
yrði byrjað á skólanum, ætti hann í sér vaxtarmátt fyrir
heilög fræðin og bók allra bóka til þess að vera þjóðinni
aflvaki trúar og menningar. Það er saga Hóla í Hjaltadal
um aldaraðir.