Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1973, Qupperneq 56
56
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
á dyrnar og kampana inn að eldstæðinu var hlaðið upp eldivið, mel
og skógi, til þurrkunar, ef þörf krafði. Korninu var dreift um sofn-
stæðið í jafna breiðu, sem var um eitt kvartel á þykkt. Nú var kveikt
í eldfimu efni á eldstæðinu. Skálpin eða blaðkan utan af stönginni,
sem til féll, þegar verið var að rusla (svo) í melnum (þ. e. skaka),
þótti ágæt til uppkveikju, þegar hún var vel þurr. Bætt var á eld-
inn stöng (melstöng) og skógi eftir þörfum. Við síðari kyndingar
var sáðinni (hýðinu) af tinanum haldið til haga til að glæða með
logann. Hún var geymd í lausabyttunni milli kyndinga. Mikilsvert
var, að aðeins súgaði inn frá dyrum sofnhússins inn að eldstæðinu
svo reykinn legði vel upp um reykopið. Skjól var þá sett upp utan
við dyr eftir vindátt, oft með sofnhússhurðinni. 1 hreinni austan-
átt var þá skjólið sett upp vestan við dyrnar. Hurðin stóð þá upp
á endann við dyrakarminn með stefnu aðeins til landsuðurs.
Maðurinn, sem kynti sofninn, sat flötum beinum við dyrnar undir
sofnstæðinu og hafði ekki annað sæti en dálitla breiðu af melstöng-
um. Við hlið honum var eldsmaturinn, sem borinn var að eftir þörf-
um. Nauðsyn var að tempra eldinn, en hæfilegt þótti, að logann legði
um hálfa leið upp að fláttunum.
Sérstakt járn, áþekkt grjótjárni (járnkarli), um IV2 alin á lengd,
var haft undir glóðinni til að lofta með undir eldsneytið 0g auka
logann ef þörf krafði. Það lá á steini framan við eldinn og var því
hreyft með vogarafli undir logann. Þætti loginn verða of hár, var
járnið tekið og slegið með því ofan á eldinn, sem þá dempaðist nið-
ur. Járnið fylgdi sofnhúsinu.
Listin við að kynda sofn var sú að kynda hvorki of né van og að-
eins hæfilega mikið til að ná hýðinu af tinanum.
Kynt var með hléum. Þau mörkuðu skil milli þess, sem kallað var
hitur. Talað var um aS lcynda hitur. I lok hverrar hitu var ekki sett-
ur eldiviður á glóðina. Maðurinn, sem kynti, skreið þá inn á sofn-
stæðið, hrærði í korninu og hreyfði það til eftir þörfum. Við kynd-
inguna misþornaði kornið, þornaði betur út við veggi en beint yfir
eldinum. Að þessu loknu var kynt önnur hita og svo áfram, þar til
sofninn var álitinn fullkyntur. Blautt korn gat þurft margar hitur.
Reynt var, hvort sofn væri fullkyntur með því að taka korn í vinstri
lófa og nudda krepptum hnefa hægri handar niður í lófann. Nóg
var kynt ef sáðin á korninu losnaði við hreyfinguna.
í lok verksins var tyrft yfir eldinn með valllendistorfi og lélegt
brekán jafnframt breitt á gólfið, er kornið var tekið ofan.