Andvari - 01.01.1993, Blaðsíða 25
ANDVARI
PÁLMI JÓNSSON
23
eftir það að kaupa málverk eftir íslenska listamenn, eftir því sem efn-
in leyfðu.
Árið 1954 eignuðust þau Jónína og Pálmi fyrsta barn sitt, sem skírt
var Sigurður Gísli. Fjórum árum síðar hófu þau búskap í lítilli þak-
íbúð á Sólvallagötu 41; á miðhæð bjó móðursystir Pálma, Sigurlaug,
en á fyrstu hæð móðurbróðir hans og uppeldisbróðir, Andrés Björns-
son, sem þá starfaði hjá Ríkisútvarpinu. Árið 1959 eignuðust þau
Jónína og Pálmi annað barn sitt, Jón. Þá um jólin, 23. desember,
giftu þau sig. Sama árið fluttist fjölskyldan í íbúð í Álfheimum 46,
sem þau leigðu, því að Pálmi var þá að stofna Hagkaup og átti ekk-
ert afgangs í íbúðarkaup. Næsta ár eignuðust þau hjón dóttur, Ingi-
björgu Stefaníu. Árið 1967 fluttist Pálmi ásamt konu sinni og börn-
um í ágætt og rúmgott einbýlishús að Ásenda 1, og þar fæddist þeim
önnur dóttir, Lilja Sigurlína. Þegar fuglarnir voru allir flognir úr
hreiðrinu, árið 1986, komu þau Pálmi og Jónína sér fyrir í íbúð í Mið-
leiti 5.
I lagadeildinni eignaðist Pálmi góðan vin, Bjarna Sigurðsson; hann
var mikill gáfumaður og grúskari, sem tók fyrst lagapróf, var síðan
blaðamaður um skeið, varð því næst guðfræðingur og prestur á Mos-
felli, en kenndi síðast í guðfræðideild. Áttu þeir ófáar samverustund-
ir og skröfuðu þá um allt milli himins og jarðar. Bjarni var þremur
árum eldri en Pálmi; hann átti ættir að rekja austur í Flóa. Kona hans
var Aðalbjörg Sigríður Guðmundsdóttir, og urðu þau hjón miklir
vinir Pálma og Jónínu. Auk þeirra umgengust þau Jónína og Pálmi
Sólveigu, tvíburasystur Pálma, og eiginmann hennar, Ásberg Sig-
urðsson, sýslumann og alþingismann, sérstaklega eftir að þau Sólveig
fluttust til Reykjavíkur. Einnig voru Guðni rektor Guðmundsson og
Katrín Ólafsdóttir, kona hans, góðir vinir þeirra hjóna. Að loknu
laganámi starfaði Pálmi um skeið hjá Heildverslun Jóns Loftssonar,
sem þá var til húsa við Hringbraut, nálægt sjónum. Flutti þetta fyrir-
tæki inn stóra fólks- og vöruflutningabíla af Nash-gerð; systurfélag
Heildverslunar Jóns Loftssonar var Vikurfélagið, sem framleiddi
vikurplötur og holsteina úr vikri frá Snæfellsnesi. Pálmi undi sér
miðlungi vel hjá Heildverslun Jóns Loftssonar; hann vildi verða sinn
eigin herra, finna kröftum sínum annan vettvang. Hvarf hann fljót-
lega úr þessu starfi og sinnti ýmsum verkefnum í Reykjavík næstu ár,
jafnframt því sem hann aðstoðaði foreldra sína norður á Hofi. Eitt af