Andvari - 01.01.1993, Síða 30
28
HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON
ANDVARI
Pálmi lenti í fyrstu verulegu átökum sínum við reykvíska kaup-
menn, eftir að hann hóf innflutning matvöru vorið 1967. Tildrög voru
þau, að hann komst á snoðir um það, að til væru ódýrar appelsínur í
Flórída. Keypti hann þær og bauð viðskiptavinum á miklu lægra
verði en aðrir. Kílóið af nýtíndum appelsínum beint frá Flórída kost-
aði 17,50 krónur í Hagkaup, en 30-35 krónur í öðrum verslunum.
Vakti þetta mikla athygli, og skrifaði Alþýðublaðið heilan leiðara
um málið. „Almenningur hefur furðað sig á því, að unnt skuli að
lækka verð á algengri vörutegund um helming, án þess að um telj-
andi gæðarýrnun sé að ræða,“ sagði blaðið.28 „Samtök innflytjenda
ættu að skýra þetta mál fyrir almenningi.“ Appelsínusendingin seld-
ist upp á svipstundu, og ákvað Pálmi þá að stofna matvörudeild í
Hagkaupsbúðinni við Miklatorg, þar sem yrðu á boðstólum vörur frá
heildsölum og framleiðendum, en líka flutt beint inn. Hófst rekstur
deildarinnar í fyrri hluta októbermánaðar 1967. Flykktist fólk í búð-
ina til þess að kaupa matvæli, sem voru talsvert ódýrari en annars
staðar gerðist.
Ekki voru margir dagar liðnir, þegar babb kom í bátinn. Nokkur
heildsölufyrirtæki, þar á meðal Eggert Kristjánsson & Co. og Ó.
Johnson & Kaaber, tilkynntu Hagkaupsmönnum, að þau gætu ekki
haldið áfram að selja Hagkaup vörur, þótt þau fegin vildu, því að
nokkrir bestu viðskiptavinir þeirra í hópi kaupmanna hótuðu að slíta
öllum viðskiptum við þau, nema þau hættu að birgja Hagkaup upp af
vörum.29 „Pað væri töluvert fróðlegt fyrir almenning að fá vitneskju
um það, hver meðalálagning matvöruverslananna er í raun og veru,“
sagði Pálmi í Hagkaup í viðtali við Vísi.30 „Þá er einnig spurning,
hvers vegna matvörukaupmenn eru að versla með vörur, sem þeir
tapa á, að því er þeir sjálfir segja, eða hvers vegna menn sækja svo
mjög í þessa atvinnugrein, ef hún er jafnóarðbær og matvörukaup-
menn hafa margsinnis gefið í skyn.“
Aðgerðum kaupmanna var víðast illa tekið. Viðskiptaráðherra,
sem þá var Gylfi Þ. Gíslason, lét það berast til blaðanna, að hann liti
þetta mál alvarlegum augum. Þjóðviljinn greip tækifærið og skrifaði:
„Það hefur nú komið í ljós, að hin frjálsa samkeppni, sem kaupmenn
halda svo mjög á lofti, er ekki frjálsari en svo, að þegar einn úr hópn-
um tekur sig til og selur ódýrari vörur en hinir, er þegar í stað gripið
til þvingunarráðstafana til að torvelda honum rekstur fyrirtækis-