Andvari - 01.01.1993, Blaðsíða 44
42
HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON
ANDVARI
sonar í Hagkaup og þeirra, sem störfuðu með honum að smíði hinn-
ar nýju verslunarmiðstöðvar, aðallega Sigurðar Gísla, sonar hans, og
Ragnars Atla Guðmundssonar. Heimsókn í slíka verslunarmiðstöð
varð að vera annað og meira en leiðinlegt skylduverk viðskiptavin-
anna; hún varð að vera skemmtiferð, en til þess var nauðsynlegt að
bjóða þar upp á alls konar þjónustu, uppákomur öðru hverju, þægi-
leg kaffihús og skemmtilega veitingastaði, snyrtilegt umhverfi, góða
birtu, tré og blóm, leiksvæði fyrir börn og svo framvegis.53 Samsetn-
ing verslana skipti líka miklu máli; þótt fatahreinsun gæti ef til vill
ekki borið eins háa leigu og gleraugnaverslun, var æskilegt að reka
að minnsta kosti eitt slíkt fyrirtæki í verslunarmiðstöð, svo að menn
kæmu við annars staðar, þegar þeir ættu erindi í fatahreinsunina.
Gestir líta jafnan á verslunarmiðstöð sem eina heild; ekki gat allt
innan hennar verið jafnhagkvæmt í rekstri, alveg eins og einstakir
kaupmenn þurftu stundum að bjóða fram vöru, sem þeir græddu lítið
sem ekkert á, til þess að laða að viðskiptavini, sem keyptu aðra vöru
með hærri álagningu. Enn fremur var nauðsynlegt að búa svo um
hnúta, að allar verslanir hæfu rekstur á sama tíma; stilla varð saman
strengi hinna fjölmörgu kaupmanna, sem keyptu reiti í verslunar-
miðstöðinni nýju, og gekk það ekki þrautalaust. Urðu Hagkaups-
menn varir við nokkra tortryggni hugsanlegra kaupenda í sinn garð í
byrjun, en úr henni dró, er líða tók á verkið. Lögðu þeir Pálmi og
Sigurður Gísli mikið á sig til þess að koma kaupmönnum í skilning
um það, hvers eðlis slík verslunarmiðstöð var. Meðal annars skipu-
lögðu þeir ferð þeirra út til Bretlands, þar sem miðstöðvar voru
skoðaðar. Árið 1985 hafði tekist að selja næstum því alla reitina í
hinni nýju verslunarmiðstöð. Við allar þessar áætlanir og fram-
kvæmdir nutu Hagkaupsmenn hollra ráða Stanleys Carters.
Efnt var til samkeppni um nafn á hinni nýju verslunarmiðstöð, og
varð Kringlan fyrir valinu. Einn eftirminnilegasti dagur í lífi Pálma
Jónssonar í Hagkaup rann síðan upp 13. ágúst 1987, en þegar í apríl
1986 höfðu hann og aðrir Hagkaupsmenn ákveðið, að hin nýja versl-
unarmiðstöð, Kringlan, yrði vígð með viðhöfn þennan ágústdag ári
síðar; hlógu sumir þá að þeirri óhóflegu bjartsýni. Hátíðin hófst
klukkan tíu að morgni með miklum morgunverði 1.500 gesta, en
Kringluna opnaði Jón Sigurðsson, sem þá var nýorðinn viðskiptaráð-
herra. Að baki voru þrjú ár sleitulausrar vinnu og einbeitingar Hag-
kaupsmanna, og töluðu sumir þeirra í því viðfangi um „Kringlu-