Andvari - 01.01.1993, Blaðsíða 56
54
HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON
ANDVARI
ols gefa út. „Pabbi var hrifinn af Gyðingum: Honum fundust þeir
greindir og klókir,“ segir Ingibjörg Stefanía, dóttir Pálma. Hann var
líka mjög hrifinn af bandarísku rannsóknarstofnuninni Heritage
Foundation í Washington, D. C., sem íhaldssamir frjálshyggjumenn
reka. Pessi stofnun starfar í anda hins kunna hagfræðings Friðriks
Ágústs von Hayeks, sem fékk nóbelsverðlaun í hagfræði árið 1974.
„Pabbi var áhugamaður um íslenska tungu, vöxt hennar og viðgang.
Hann talaði látlaust mál, en smekklegt,“ segir dóttir hans, Lilja.
Þótt Pálmi Jónsson í Hagkaup væri hæglátur maður og hlédrægur,
var hann síður en svo sviplaus. Hann var vandlátur á föt og vildi, að
klæði sín færu vel. „Hann keypti oftast föt á sig í Lundúnum, og það
var mjög tímafrekt, þar eð hann var vandfýsinn á efni og snið og
vegna þess að hann var stór, svo að fátt hæfði honum breytingar-
laust,“ segir Jónína. „Hann hafði líka gaman af bílum, vildi aka stór-
um, glæsilegum, amerískum bílum. Stundum fór hann í langa bíltúra
einn til þess eins að geta hugsað í friði.“ Pálmi var mikill hestamaður
á yngri árum, eins og fleiri í ætt hans; átti hann þá jafnan fjóra eða
fimm hesta af Svaðastaðakyni. Eftirlætishestur hans var Steingráni,
sem var blindur á öðru auga, hafði rekist í girðingu; kunni Pálmi
einn að sitja hann, svo að allt færi vel. Þá stundaði hann nokkuð
stangveiði, en aldrei í dýrustu laxveiðiánum; hann skrapp norður í
Fljót til þess að renna fyrir lax. Pálmi hafði gaman af að spila bridds;
hann og Jónína spiluðu þá oftast við Sigurlaugu, móðursystur Pálma,
og Árna Guðjónsson, gamlan vin fjölskyldunnar. Síðustu árin, sem
Pálmi lifði, starfaði hann í Rotary-klúbbi Reykjavíkur, sem hittist í
hádegisverði einu sinni í viku og hlýddi þá jafnan á erindi einhvers
merkismanns; hafði hann í upphafi verið tregur til þátttöku, en líkaði
því betur við klúbbinn sem hann var lengur í honum.
Tvennt var það í fari Pálma, sem kom mörgum á óvart og féll lítt
að hinni hefðbundnu mynd af athafnamönnum. Annað var það, að
hann hafði gaman af kynlegum kvistum og tók þeim jafnan vel. Átti
hann til að gefa þeim brennivín eða gauka að þeim góðgæti, og fengu
sumir þeirra jafnvel húsaskjól á heimili þeirra hjóna. Þá setti Pálmi
það ekki fyrir sig, þótt menn hefði ratað í einhverja ógæfu, komist
undir manna hendur eða veiklast um tíma á vitsmunum; var hann
jafnan reiðubúinn að veita þeim tækifæri. Hitt einkenni Pálma var,
hversu frábitinn hann var öllum munaði, yfirlæti og eyðslu, þótt hann
væri hjálpsamur og gjafmildur. Hann hafði annað þarfara að gera við