Andvari - 01.01.1993, Page 84
82
TRYGGVI GÍSLASON
ANDVARI
menn bandalagsins sem vilja koma á sambandsríki en þekkja afstöðu bresku stjórnar-
innar og bresku stjórnarandstöðunnar eru undir það búnir að fórna þessum hug-
myndum sínum um sambandsríki til þess að gera Bretum kleift að gerast aðilar að
bandalaginu.
í lokaumræðum á breska þinginu um aðild Breta að Efnahagsbandalagi
Evrópu árið 1971 sagði þáverandi utanríkráðherra, Sir Alec Douglas-Home
[f. 1903] að Bretland yrði aldrei neytt inn í sambandsríki Evrópu því að
„stórveldi með sögu á borð við þessi ríki Evrópu verða ekki þvinguð eða
neydd inn í stjórnmálasamband sem þeim fellur ekki í geð“. Jafnvel í um-
ræðum í breska þinginu árið 1986, þegar einingarlögin voru til umræðu,
sagði Sir Geoffrey Howe [f. 1926], þáverandi utanríkisráðherra Breta m.a.:
Við erum hér ekki að tala um að lýsa yfir eða að boða bandaríki Evrópu. Það sem
einingarlögin leiða ekki til - og mér er í mun að leggja á það sérstaka áherslu - þau
leiða ekki til ríkismyndunar (federal union). (Sjá Oliver Letwin: Drift to Union.
London 1989:5)
Stjórnmál lúta sínum eigin lögmálum. Flestum er nú ljóst að EB er ekki að-
eins efnahagsbandalag sjálfstæðra og fullvalda ríkja heldur er stefnt að
einni pólitískri heild, Evrópusambandi eða bandaríkjum Evrópu. Pegar
með Rómarsáttmálanum er mörkuð stefnan. I drögum að evrópsku ríkja-
bandalagi (the Draft Treaty of European Union), sem þing EB samþykkti
14. febrúar 1984 en hlaut ekki staðfestingu aðildarríkjanna, er boðuð sama
stefna og síðar kom fram í einingarlögum Evrópu, að öll lög EB hljóti þeg-
ar í stað gildi í aðildarríkjunum og þegar lög EB og landslög greini á ráði
lög EB. Að lokum má nefna Maastricht-samkomulagið frá því 11. desember
1991 þar sem endanlega var mörkuð sú stefna að koma á fót sambandsríki
aðildarríkja EB sem hefði sameiginlegt löggjafarvald, sameiginlegt dóms-
vald og sameiginlegt framkvæmdavald - eða með öðrum orðum: fullvalda
ríki 325 milljóna manna - þjóða sem eiga sér ólíka sögu, ólíkar hefðir og
ólíka menningu - og tala ólíkar þjóðtungur.
Þetta er djörf áætlun og hún er gerð af miklum hugsjóna- og sannfæring-
arkrafti. „Ef lönd Evrópu eiga að sigra í samkeppninni í heiminum, og þar
með lifa af, er sameiginlegt stefnumark nauðsynlegt til þess að geta horft
lengra fram á veginn en til dagsins í dag og til að njóta sameiginlegra krafta
og nýta sameiginlega orku,“ segir Jacques Delors, núverandi formaður
stjórnarnefndar EB og fyrrum fjármálaráðherra Frakklands.