Andvari - 01.01.1993, Page 86
84
TRYGGVI GÍSLASON
ANDVARI
un og ekki fyrr en búið sé að leysa ýmis innri vandamál sem nú er glímt
við.
Eins og lesendur þekkja hafa ríkisstjórnir Finnlands, Noregs og Svíþjóð-
ar óskað eftir samningaviðræðum við framkvæmdastjórn EB um hugsan-
lega aðild enda þótt meirihluti kjósenda í löndunum öllum virðist vera and-
vígur fullri aðild. Verður tekist á um þetta á næstu misserum í löndunum
öllum. Hins vegar eru sænsk og finnsk stórfyrirtæki þegar farin að tryggja
sig í samkeppninni í Evrópu með því að ganga til samstarfs við fyrirtæki
innan EB og samruni og stofnun alþjóðlegra fyrirtækja virðist breyta þró-
uninni frá degi til dags. Er hugsanlegt að auðmagnið í Evrópu finni nýjar
leiðir til að eflast ef því finnst seint ganga þróunin í EB. Stjórnvöld í Rúss-
landi og öðrum lýðveldum hinna gömlu Sovétríkja hafa lýst því yfir að þau
hafi ekkert við það að athuga að Finnland gerist aðili að EB en þau geti
hins vegar ekki fallist á að Finnland gerist aðili að NATO. Virðist þá litið
fram hjá því að EB stefnir að sameiginlegu hernaðar- og varnarbandalagi
og sameiginlegri utanríkisstefnu. Auk þess eru öfl innan hinna gömlu
sovétlýðvelda sem vilja aðild að EB. Margt getur því gerst og óvíst er
hvernig Evrópusamvinna framtíðarinnar verður.
Ástæðan til þess að leiðtogar EB láta sér ekki nægja fríverslunarbanda-
lag eða efnahagsbandalag er sú að fríverslunarbandalag er ekki talið hafa
sama pólitíska vald og eitt ríki sem hefur eitt löggjafarþing, ríkisstjórn og
sameiginlegt dómskerfi. Núverandi þjóðríki, eins og Danmörk eða Bret-
land, fá að sjálfsögðu að halda yfirráðum yfir ákveðnum staðbundnum
þáttum í stjórnkerfinu en þau verða fylki í ríkinu en ekki sjálfstæð, full-
valda þjóðríki. Poul Schlíiter, fyrrum forsætisráðherra Dana, sagði líka í
ræðu sem hann hélt í Lundúnum í júlí 1989, að þjóðríkið væri dautt. Yfir-
þjóðlegar stofnanir tækju við stjórninni og þannig gætu hin gömlu þjóðríki
tryggt stöðu sína og afkomu þegna sinna. Menn yrðu að láta fullveldi sitt til
að halda frelsi sínu, eins og Sir Winston Churchill orðaði þessa hugsun.
Engu að síður eru menn ekki á einu máli um hvað slíkt evrópskt ríki feli í
sér. Margir íhaldsmenn og þjóðernissinnar telja slíkt ríki brjóta í bága við
grundvallarreglur þjóðaréttar og mannfrelsis. Aðrir segja að þetta sé djarf-
huga áætlun framsýnna stjórnmálamanna sem ekki þekki neinar takmark-
anir þegar framfarir og endurbætur séu annars vegar.
Marglyndi Evrópu og sundurleit menning
Það sem talið er að hafa einkennt menningu og stjórnarfar í Evrópu allt frá
dögum Grikkja og Rómverja er fjölbreytnin. Talið er að endurnýjunar-