Andvari - 01.01.1993, Side 94
92
HALLFREÐUR ÖRN EIRÍKSSON
ANDVARI
jafnvel hin skynsamlegustu heilræði og ráðagerðir frægra vitringa stóðust
misjafnlega mátt örlaganna eins og einna gleggst sést í Brennu-Njáls sögu.
Sem von var hefur konum á söguöld verið það tamara að eggja deiga
vandamenn hefnda en koma þeim sjálfar fram. Reyndust þær flestar að
þessu andlega skyldari Brynhildi Buðladóttur en Guðrúnu Gjúkadóttur,
tveimur stórráðum konum í hetjukvæðum Eddu, nema Auður í Laxdælu,
eiginkona Þórðar Ingunnarsonar, þótt hún hefndi sín að vonum ekki eins
greypilega og Guðrún Gjúkadóttir. Öllu meira varð úr raunum valkyrjunn-
ar Brynhildar Buðladóttur sem hefndi svika elskhuga síns með því að ger-
ast ráðbani hans. Líkust Brynhildi var Guðrún Ósvífursdóttir, helsta kven-
hetja Laxdæla sögu, en hún lét sér það ekki brenna fyrir brjósti að hóta
Bolla bónda sínum skilnaði nema hann vægi Kjartan Olafsson fóstbróður
sinn. Við liggur að eggjan Hildigunnar Starkaðardóttur í Brennu-Njáls
sögu hverfi í skuggann fyrir þessum ósköpum. Enginn gat ámælt Hildi-
gunni fyrir að þvertaka eftir fall eiginmanns síns, Höskulds Hvítanessgoða,
að sættast á heit Flosa, föðurbróður síns, um að sækja vígsmálið eftir Hösk-
uld „til fullra laga eða veita til þeira sætta, er góðir menn sjá, að vér sém
vel sæmdir af í alla staði,“ en krefjast heldur hefnda með því að leggja yfir
Flosa með hinum mögnuðustu frýjunarorðum alblóðuga skikkjuna af
Höskuldi dauðum. En ekki héldu þessar skapmiklu konur allar virðingu
sinni eins og dæmi Þuríðar í Heiðarvíga sögu sannar. Hún eggjaði syni sína
skörulega til hefnda; en nóg var þeim boðið þegar gamla konan hélt af stað
með þeim; sáu þeir svo til þess á leiðinni að hún dytti af hestbaki í læk og
sneri við það heim. Gráglettni bræðranna varð samt léttbærari Þuríði en
örlögin urðu Guðrúnu Ósvífursdóttur og Hildigunni. Hjónaband Guðrúnar
og Þorkels Eyjólfssonar hefur vart verið neitt girndarráð megi trúa
Laxdælu, og höfundur Brennu-Njáls sögu virðist hafa þekkt of traustar
heimildir um hjónaband Hildigunnar og Kára Sölmundarsonar, banamanns
bónda hennar, til að rengja þær. Þar hefur Hildigunnur goldið þess að
venja var í ættasamfélögum að treysta sættir eftir föngum með hjónabönd-
um.
III
íslendingasögur hafa orðið Jóni Thoroddsen ómetanleg hvatning. Varla
þarf nema líta yfir sögusvið Pilts og stúlku og Manns og konu til að sjá
hvert metnaðarmál honum hefur verið að lýsa samtíð sinni eins rækilega og
efni stóðu til hvoru sinni. í Pilti og stúlku kynnast lesendur lífinu bæði í
heimasveit elskendanna og hinum unga höfuðstað, auk þess sem sögunni