Andvari - 01.01.1993, Qupperneq 114
112
ÚLFAR BRAGASON
ANDVARI
manst það. Hvort þú hefir erft skáldgáfuna af foreldrum þínum eða hvaðan þér er
komið minni þitt. Þá þætti mér mjög gaman að vita, á hvaða stöðum þú varst vestra
og hve lengi í stað, hvar þú namst land (lönd), hverja stjórnmálaflokka þú fylltir í
U.S.A. og Canada. Fróðlegt líka að vita um bókakost þinn, hverja höfunda þú hefir
helzt lesið eða hvaða menn íslenzkir höfðu helzt áhrif á þig hér heima í uppvexti.
Giftingarár þitt vildi ég og vita og aldur barna þinna og hvað þau stunda. Auk alls
þessa væri afar gaman að smásögum úr ævi þinni þar vestra, t.d. ferðalögum, eða
frumbýlingsárum.
Þessa fyrirhuguðu grein mína þyrfti ég að semja seint í júlí eða fyrst í ágúst, og þó
að til mikils sé nú mælzt, þá treysti ég þér nú til að veita mér einhverja úrlausn og
helzt sem orðflesta, því að ég mun hafa sagt þér það áður, að mér finnst þú ævinlega
of orðfár, en aðrir rithöfundar of orðmargir [153-54].
Baldur hefur haft rómantískar hugmyndir um ritstörf og skilningur hans á
ljóðum Stephans verið ævisögulegur - eða eins og hann segir að innri mað-
ur höfundarins þekkist af kvæðum hans. Pví gerir hann ekki greinarmun á
ævi og ritferli eins og Stephan hafði gert í fyrstu úrlausn sinni.
Ekki leið á löngu áður en Stephan sinnti kalli Baldurs. Drög til ævisögu
eru dagsett 31. maí 1923 (ártalið 1922 sem stendur í handritinu fær ekki
staðist þegar bréfaskipti þeirra Baldurs eru skoðuð í heild). Stephan hefur
sent Baldri þau jafnharðan eins og kemur fram í bréfi sem hann ritaði 10.
júní:
Nú, fyrir nálægt viku, sendi ég þér sendingu áleiðis til Islands, venjulega póstgötu.
. . . Það var „syrpa“ ein, sóðaleg, en átti að vera í þá átt, sem þú mæltist til í bréfi
þínu, inu síðasta. Eg kem nú til að biðja þig afsökunar á öllu flaustrinu. Allt varð mér
um hönd, ég var jafnvel pappírslítill . . . en mátti ekki missa neina frístund, sem félli
til milli annarra vika, til að hlaupa í og úr þessu, ætti ég [að] geta sýnt lit á að vilja
gegna þér. Fyrirgefðu vanhöldin öll, og getir þú nokkuð notað úr þessu „bráðræði",
verður þú að laga framsögn og stafsetningu. Um það hirti ég ekkert [III: 56-57].
Af þessu sést að Stephan hefur skrifað æviágripið á mjög skömmum tíma.
Sé gengið út frá því að bréf Baldurs hafi verið um þrjár vikur á leiðinni
milli Reykjavíkur og Markerville í Albertafylki í Kanada, þar sem Stephan
bjó, svipað og bréf hans frá 23. janúar (sbr. bréf Stephans 6. mars [III: 78]),
hefur hann samið það á um það bil viku. En drögin eru tuttugu síður í
Bréfum og ritgerðum (IV: 79-98). Orð Stephans bera einnig glöggt vitni
um aðstæður hans þegar hann var að skrifa drögin, ásetning hans að verða
við ósk Baldurs og að hann taldi textann standa til bóta. Enda bætti hann
síðar tvívegis við þau fyrir beiðni Baldurs. Kallast þeir þættir Úr „Skólasög-
unni“ (1924) og Afsökun (1925) í útgáfu Þorkels Jóhannessonar. Þetta
verður að hafa í huga þegar æviágrip Stephans er skoðað. Aðstæður hans
skýra vafalaust að einhverju leyti hversu bundinn hann er spurningum
Baldurs við ritun þess eins og brátt verður vikið að. Þó nefnir hann síðar að
hann vakni „skást við, ef að einhverju er spurt [IV: 104]“. Það sést líka af