Andvari - 01.01.1993, Qupperneq 126
124
ARNHEIÐUR SIGURÐARDÓTTIR
ANDVARI
Meðal þeirra má nefna Árna Eiríksson, Helga Helgason, frú Stefaníu Guð-
mundsdóttur og Jens B. Waage. Ýmsir áhrifamenn á sviði menningarmála
höfðu verið frumkvöðlar og hvatamenn að stofnun og starfsemi stúkunnar,
meðal annars ritstjórarnir Jón Ólafsson og Valdimar Ásmundsson og síðar
Einar Hjörleifsson.
Á fundum og samkomum Einingarinnar gafst mönnum oft kostur á að
sjá og heyra það, sem efst var á baugi í menningar- og félagslífi bæjarins.
Sönglíf var einnig nátengt bindindisstarfseminni í Reykjavík sem og víða
annars staðar.
Guðmundur Magnússon gekk í Eininguna þegar 1898 ásamt konu sinni
og var þar mikilvirkur félagi allt til dauðadags. Hann varð brátt ritari stúk-
unnar, síðar kosinn æðsti templari, einnig var hann um tíma umboðsmaður
stórtemplara. Guðmundur átti löngum sæti í hagnefnd, sem var eins konar
dagskrárnefnd sem sá um undirbúning stúkufunda og samkomur á vegum
Einingarinnar.
Á stúkufundum las Guðmundur upp ljóð og sögur. Hinn 12. apríl 1900
les hann upp sögu sem virðist hafa verið frumsamin og hinn 21. júní sama
ár er hann í fundargerð sagður hafa lesið ágæta sögu. Einnig flutti hann
fræðsluerindi, svo sem um viðhorf Tolstojs til bindindismála og um skáldið
Björnstjerne Björnson. Árið 1903 flutti Guðmundur þrjá fyrirlestra í röð
um skáldin Matthías, Gröndal og Jónas Hallgrímsson. Allir þessir fyrir-
lestrar glötuðust, þegar íbúð hans brann árið 1910.
Guðmundur þótti áheyrilegur fyrirlesari. Sjálfum var honum yndi að því
að miðla öðrum fróðleik. Hann var löngum meðal fremstu skemmtikrafta á
árshátíðum og afmælum Einingarinnar. Við þau tækifæri urðu til sum
þeirra ljóða hans er einna kunnust hafa orðið, svo sem „Vel er mætt til
vinafunda“, „Þá hugsjónir fæðast“ og „Heyrðu yfir höfin gjalla“. Það voru
líka stúkufélagar Guðmundar, sem löngum hlýddu fyrstir allra á þætti úr
óprentuðum verkum hans. Af fundargerðum sést að þeim upplestrum var
jafnan vel fagnað. Innan þessa félagsskapar mun Guðmundur best hafa
notið samfélagsins við aðra. Þar kynntist hann ýmsum gáfu- og mennta-
mönnum, svo sem Guðmundi Björnssyni landlækni.
Öldruð kona, Kristjana Benediktsdóttir, er lengi starfaði á vegum Ein-
ingarinnar, minnist þess er hún, þá nýgengin í stúkuna og kornung, var
send á fund skáldsins að fala afmæliskvæði. Henni er einkum minnisstætt
hvernig Guðmundur tók í hendi, „þétt og með dveljandi.“ Einnig augnaráð
hans, er þau heilsuðust fyrst - fast en þó eins og hann horfði ekki beint á
hana. Sérstætt blik eða bjarmi í augunum, tillitið eins og hann sæi mann í
gegn, fannst henni. Stundum virtust augun björt, stundum nær dökk til að
sjá.
Fyrstu árin í höfuðstaðnum urðu Guðmundi Magnússyni örðug á marga