Andvari - 01.01.1993, Page 157
ANDVARI
TVHIM TUNGUM
155
er hann orti kvæðið, er síður en svo nein philosophia perennis, þannig að úr
hlaut að verða harla ósamstæð heild að þessu leyti, og það ekki síður þótt
við bættist ýmisskonar ívaf annað, svo sem Gralsögnin og slitur úr trú-
arritum og skáldskap úr ólíkum áttum. Það er því engin furða þótt Eliot
hafi oft verið borið það á brýn að verk hans séu sundurlaus, en þá hafa
menn kannski gleymt því, hvort heldur sem þeir telja honum sundurleysið
til hróss (eins og íslensku atómskáldin) eða lasts, að þetta sundurleysi er
einmitt viðfangsefni eða yrkisefni hans í Eyðilandinu, þar sem samtími
hans birtist sem berangur og „hrúga af molnuðum myndum“. Afrek Eliots
felst einmitt í því að hafa horfst í augu við allt þetta hrófatildur og náð að
fella ringulreið og upplausn samtíma síns og eigin lífs inn í listaverk sem er
býsna heilsteypt og þéttriðið þegar betur er að gáð, enda ekki ort í því
skyni að auka á þessa upplausn, eins og einhverjir kunna að hafa haldið,
heldur til að vinna gegn henni.
Engum skal þó láð þótt hann við fyrsta lestur Eyðilandsins eigi bágt með
að koma auga á téð samhengi, því höfundur virðist vaða úr einu í annað án
þess að hirða um að byggja brýr á milli og lætur leikinn berast úr einum
árstíma í annan eða frá umhleypingum aprílmánaðar inn í kyrrstöðu vetr-
arins og frá einni borg til annarrar eða frá Hofgarten í Munchen til Lund-
únabrúar, úr víti Dantes (eða fordyri þess) til eyðistranda Tristans, frá
minningum Larisch greifynju til spáspila Maddömu Sosostris, úr sjávar-
djúpi Alonsos Mílanskóngs og Flebasar hins sjódauða upp í hrjóstrugar
hæðirnar þar sem mál þrumunnar heyrist eitt en enga einveru er þó að
finna - og svo mætti lengi telja. En ekki nóg með það að efnisþráðurinn sé
æði hlykkjóttur eða réttar sagt slitróttur heldur er líka vaðið úr einu tungu-
máli í annað, eða úr býsna blæbrigðaríkri ensku yfir í frönsku, ítölsku,
próvensölsku, þýsku og loks sanskrít - eins og ekkert væri sjálfsagðara. En
við nánari lestur og rýni í verkið kemur þó í ljós að það er býsna þéttofið net
samsvarana og samhengis svo undrun sætir. Þótt það samhengi sé ekki, eins
og stundum í lengri kvæðum, epískt eða sagnrænt í venjulegum skilningi
eða þá dramatískt eða leikrænt, þá má vissulega finna vott hvors tveggja í
framvindu og spennu verksins, svo sem í samtalsatriðum sem minna á leik-
þætti, og það fer raunar ekki illa á því að það skiptist í fimm hluta eða
áfanga eins og títt er um klassíska sjónleiki. En hér er auðvitað lýriskt verk
og lýtur þeim byggingarlögmálum sem þar gilda og eru í rauninni meir í ætt
við tónlist en nokkuð annað. Þetta verður einkar greinilegt í kvæðum Eli-
ots, og það var ekki að ófyrirsynju að hann nefndi eina bók sína Fjóra
kvartetta, enda er Eyðilandið allt byggt upp á stefjum, sem mynda sterkar
andstæður og spennu, og skjóta upp kollinum í nýrri og nýrri mynd og unn-
ið er úr í ýmsum tóntegundum og með fjölbreytilegu hljóðfalli, þannig að