Andvari - 01.01.1993, Side 159
ANDVARI
TVEIM TUNGUM
157
Summer surprised us, coming over the Starnbergersee
with a shower of rain
þar sem endurtekin s- og r-hljóð undirstrika hryssingslegan hráslagaleika
þessarar árstíðar (þ.e.í augum Eliots og ef til vill sumra okkar hér), og á
sama hátt nýtur hlýja (sic!) og festa vetrarins sín vel í v-, f- og k- hljóðum
eftirfarandi lína
Winter kept us warm, covering
Earth in forgetful snow, feeding
Og Eliot er snillingur í því að breyta um tóntegund, ef svo má segja, og
bregða sér yfir úr hátíðlegu, jafnvel biblíulegu orðfæri í allt að því hvers-
dagslegan og glettinn rabbtón, en þó er kaldhæðnin honum einna tömust
og eins og grunntónn í öllu saman. Á sama hátt hverfast myndlíkingar hans
frá því að vera í upphöfnum og lærðum barokkstíl á borð við
As though a window gave upon the sylvan scene
The change of Philomel,. .
til öllu nútímalegri og vélrænni
. . . when the human engine waits
Like a taxi throbbing waiting.
Það sem þó einkennir ljóðstíl Eliots mest af öllu eru hinar fjölmörgu vísan-
ir í ýmis fræði og tilvitnanir í önnur skáld, og gerir hvort tveggja stíl hans
býsna skrautlegan, ekki síst fyrir þá sök að vitnanir eru margar á erlendum
málum, en hins vegar gengur hann þar engan veginn eins langt og vinur
hans Pound, sem á til að stilla upp kínversku teikni, eins og óvígum dreka, í
miðri línu, því Eliot lætur sér yfirleitt nægja að sletta málum sem ekki
stinga mjög í stúf við enskuna og eru skyld henni, svo sem þau er áður eru
upp talin, frönsku, þýsku, próvensölsku og ítölsku, að ógleymdri sanskrít.
Slíkt mundi vitaskuld særa margan hreintungumanninn hér á landi, ef ís-
lenskt skáld leyfði sér slíkt, en enskan er eðli sínu og uppruna samkvæmt
opnari fyrir öllu þessháttar.
Það segir sig vitaskuld sjálft að texti af þessu tagi getur ekki verið auðles-
inn, og höfundur gerir engar smáræðis kröfur til lesanda síns, svo sem þeg-
ar vísunin „Til Karþagó kom ég“ á ekki einungis að kalla fram í huga hans
Játningar heilags Ágústínusar heldur og um leið viðhorf gervallrar mið-
aldakristni til holdsins. Slíkt kallar beinlínis á útskýringar, og Eliot braut
reyndar á sínum tíma blað með því að láta sjálfur eigin skýringar fylgja