Andvari - 01.01.2007, Page 36
34
KRISTÍN ÁSTGEIRSDÓTTIR
ANDVARI
Meginkosturinn að mati Katrínar var sá að það var konan sem stýrði
getnaðarvörnunum þegar hettan var notuð.100 Notkun hettunnar var því
leið til að tryggja yfirráðarétt kvenna yfir eigin líkama.
Það eru ekki síst hin femínisku sjónarmið Katrínar sem vekja athygli
við lestur fyrirlestrarins. Tilgangur hennar var ekki síst sá að auka
kynfrelsi kvenna og tryggja þeim sjálfsákvörðunarrétt og betra líf,
létta af þeim „áhyggjunni af að setja fleiri börn inn í þennan vandræða
heim,“101 eins og hún sagði.
Óhollt lesefni og sýking í sálarlífinu
Eins og fram kom hér að framan var Katrín þeirrar skoðunar að breyta
þyrfti gildandi lögum um fóstureyðingar en bann við þeim var að finna
í hegningarlögum frá árinu 1869. Arið 1934 var lagt fram „frumvarp til
laga um leiðbeiningar fyrir konur um varnir gegn því að verða barns-
hafandi og um fóstureyðingar“, samið af Vilmundi Jónssyni landlækni.
Nokkuð hafði borið á ólöglegum fóstureyðingum og vildi landlæknir
taka af allan vafa um hvað væri löglegt. Frumvarpið fól í sér heimildir
til að grípa til fóstureyðinga ef líf móður var í hættu, nauðgun hafði átt
sér stað, eða ástæða var til að ætla að barnið yrði vanburðugt eða bæri
alvarlegan sjúkdóm. í því var einnig að finna ákvæði um þá skyldu
lækna að fræða konur um leiðir til takmarkana barneigna.102 Segja
má að þar með hafi barátta og fræðsla Katrínar skilað árangri. Það er
athyglisvert að frumvarpið beindist eingöngu að konum. Það má túlka
annars vegar sem stuðning við það sjónarmið Katrínar að konur ættu
að ráða yfir eigin líkama, hins vegar að verið væri að varpa ábyrgðinni
alfarið yfir á konur.
Einn helsti andstæðingur þessa frumvarps var eina konan sem
þá sat á þingi, Guðrún Lárusdóttir rithöfundur, en hún hafði starfað
mikið innan kvennahreyfingarinnar, var meðal annars í framboði fyrir
kvennalista í Reykjavík árið 1912 og bæjarfulltrúi hans til ársins 1918.
Hún var einnig í framboði fyrir landslista kvenna til Alþingis árið
1926.103 Guðrún var mikil trúkona og það er fróðlegt að sjá hvernig hún
beitti öllum þeim rökum sem Katrín var að andmæla í fyrirlestri sínum
og beinlínis vísaði til hennar. Guðrún sagði að óhollu lesefni hefði rignt
yfir þjóðina um kynferðismálin, líka í útvarpi: „Alls konar óþverri