Andvari - 01.01.2007, Blaðsíða 41
andvari
KATRÍN THORODDSEN
39
greinilega að fylgi við sósíalisma væri mun minna meðal kvenna en
karla, hvað sem þær höfðu fyrir sér í því.117
I greininni lýsti Katrín því sjónarmiði að sósíalisminn væri sú stjórn-
málastefna sem miðaði að því að tryggja konum „fullt jafnrétti, fjár-
hagslegt frelsi, félagslegt öryggi og óteljandi þroskaleiðir“.118 Það væri
því ekki ástæða til ótta. Hún lýsti óttanum sem eins konar andlegum
ofnæmisviðbrögðum vegna þess hve áróðri gegn sósíalismanum væri
haldið að konum og lýsti þeim viðbrögðum í löngu máli. Hún taldi
skýringuna í raun þá að verið væri að bægja konum frá stjórnmála-
afskiptum, stjórnmál væru talin ókvenleg og ekki kvenna meðfæri.
Konur forðuðust stjórnmál nema þegar þær færu að kjósa í fylgd eig-
inmanna sinna. Katrín taldi konur fylgja mönnum sínum að málum,
það væri undantekning að konur hefðu sjálfstæða skoðun á stjórn-
málum. Þær sem teldust til undantekninga fylgdu karlmönnum í orði
en kannski ekki á borði. Konur vilji ekki særa karla. Katrín minnti á
að enn væri það svo að sveinbörn væru velkomnari í þennan heim en
stúlkubörn:
Stúlkubarnið venst því þegar í bernsku, að leggja mest upp úr kynþokkanum
og eflingu hans með ýmiskonar tildri og hégómlegri sundurgerð í klæðaburði.
Stúlkunni verður fljótlega ljóst, að hún er af óæðri kyntegund en bræður
hennar, sem oft eru smánaðir með því, að líkja þeim við stelpur eða kvenfólk.
Henni er innrætt beint og óbeint að hún sé ístöðuminni, ósjálfstæðari til orðs
og æðis en drengirnir, að enginn muni stórræða af henni vænta og hún sé í alla
staði ólíkleg til þess, að standa nokkurn tíma á eigin fótum. Stelpunni gengur
tregt að trúa á yfirburði karlmannsins en áróðurinn seytlast smátt og smátt inn
í vitund hennar, svo að um það bil er kynþroskaaldurinn ber að, er jarðvegurinn
þegar undirbúinn. En einmitt þá breytist viðhorfið karlmanninum enn meir í
vil, en kvenkyninu í óhag og áróðurinn eykst.119
Katrín var að lýsa þeirri kynmótun sem stúlkur urðu fyrir og beindist
að því að gera þær að góðum mæðrum og húsmæðrum, karlinum
óæðri. Konur voru ósjálfstæðar að mati Katrínar og var uppeldi þeirra
um að kenna. Þarna voru á ferð nokkrar alhæfingar hjá Katrínu og hún
leit framhjá þeim konum sem fóru aðrar leiðir og beittu sér fyrir breyttri
kvenímynd, t.d. með útgáfu tímaritanna Melkorku og Nýs kvennablaös,
en þær voru vissulega í miklum minnihluta. Katrín gagnrýndi umræður
um að menntun kvenna ætti að vera á sviði húsmóðurstarfa og hélt því
fram að mjög margar konur væru óánægðar með hlutskipti sitt. Það
væri ekki einleikið hve margar konur ættu við taugaveiklun að stríða.120