Andvari - 01.01.2007, Blaðsíða 82
80
BIRNA BJARNADÓTTIR
ANDVARI
umfjöllun um skrif íslensku skáldanna greina þau sig hins vegar frá Jena-
hópnum í því sem nefnt hefur verið hagnýt rómantík. Talsvert hefur verið
ritað og rætt um það efni, og hvernig tímaritið Fjölnir beri sterkan svip upp-
lýsingar.3 Hins vegar mætti spyrja hvort skilgreiningin hagnýt rómantík sé
ekki í mótsögn við sjálft inntak rómantíkur, eða þá hugmynd að rómantík
sé frelsi án takmarks. Einnig má velta því fyrir sér hvort þáttur upplýsingar í
skrifum íslensku skáldanna sé ekki keimlíkur og í skrifum annarra evrópskra
skálda sem kennd eru við rómantísku stefnuna. Fjölnismenn voru ekki aðeins
hópurinn sem kynnti nokkra megindrætti rómantísku stefnunnar á íslandi,
heldur ferjuðu þeir einnig yfir hafið arf upplýsingar í rómantísku stefnunni.
Línurnar í stefnum og straumum bókmennta eru sjaldan jafn skýrar og stund-
um er leitast við að draga í hugtökum og heitum bókmenntafræðinnar.
Hvernig sem þessu er varið, fer lítið fyrir hagnýtu rómantíkinni í kring-
umstæðum Jónasar. Ef eitthvað er tekur Jónas sjálfum höfuðpaur Jena-hóps-
ins fram í rómantík, í þeim skilningi að ljóð Jónasar, sögur, brot, þýðingar,
greinaskrif og hálfköruð íslandslýsingin, tryggðu honum aldrei annað en
eilíft frelsi andans. Ólíkt Schlegel skrifaði Jónas sig út úr embætismannakerfi
nítjándu aldar. Það var ekki endilega ætlun hans. í þrígang sótti hann um
brauð á íslandi og var synjað jafn oft. Hafi manninum blætt, er ekki hægt að
rekja slóðina inn í dansk-íslenskar stássstofur. Það er frekar að fólk þefi uppi
dreyrann í einu ævintýri og afrifum þess á íslandi.
Ævintýrið afEggerti Glóa - útlenski og almenni flokkurinn
Ævintýrið afEggerti Glóa eftir Ludwig Tieck kom út í Þýskalandi árið 1797.
Arið 1835 kom það út á íslandi í fyrsta árgangi Fjölnis, lagt út úr þýsku af
Jónasi Halllgrímssyni og Konráð Gíslasyni. í því segir frá Eggerti Glóa ridd-
ara og konu hans Bertu, sem búa í kastala, girtum hringmúr.4 Berta á sér
kynlega fortíð og maðurinn hennar, Eggert Glói, þráir að trúa vini sínum fyrir
sögu konu sinnar. Eitt kvöldið kemur vinurinn Filippus Valtari í heimsókn og
þau sitja þrjú við eldinn:
Fyrirgefið mér, sagði Berta þá, en maðurinn minn segir, þér séuð svo vænn að það sé
rangt að dylja yður nokkurs. En ekki megið þér halda, saga mín sé nein skröksaga, hvað
undarlega sem hún hljóðar.5
Líkt og sæmir alvöru ævintýri, sprettur saga Bertu úr jarðvegi fjölskyldulífs-
ins og skauti náttúrunnar. í örvæntingu strýkur stúlkan að heiman og lendir í
umsjá kerlingar úti í skógi, sem á hund og fugl. Eftir nokkur ár í vistinni fer
Bertu hins vegar að þyrsta eftir veröldinni. Hún strýkur frá kerlingunni og