Andvari - 01.01.2007, Blaðsíða 167
ANDVARI
FÁTÆKT OG ÓJÖFNUÐUR
165
en ekki samkvæmt neinum réttlætislögmálum. En hvernig ætti að bregðast við
slíkum vanda? Hegel svaraði:
Þegar lífskjörum fjöldans tekur að hnigna, þá er í fyrsta lagi unnt að leggja kostnaðinn
af því að halda uppi þeim kjörum, sem hann hefur vanist, á herðar þeirra, sem meira
mega sín. Einnig er hugsanlegt, að hann þiggi fjárhagsaðstoð frá öðrum aðilum, sem
gengið geta í digra sjóði, svo sem líknarfélögum, klaustrum og öðrum samtökum.4
Þetta hafði að vísu einnig þau óæskilegu áhrif að dómi Hegels, að menn tækju
að hugsa um sjálfa sig sem betlara, þar sem þeir þægju ölmusu í stað launa.
Annar möguleiki væri, að ríkið héldi uppi atvinnubótavinnu. Sá hængur væri
á, að offramboð væri á markaðnum, svo að það yki á vandann í stað þess að
minnka hann. (Um þetta hafði Hegel svipaðar hugmyndir og John Maynard
Keynes lávarður síðar.) Hvað sem því líður, sá Hegel fyrir velferðarríkið, sem
vísir myndaðist að í lok nítjándu aldar, en tók út þroska á hinni tuttugustu.
Upphafsmaður þess hefur löngum verið talinn þýski járnkanslarinn Otto von
Bismarck, sem beitti sér fyrir almannatryggingum um og eftir 1880 í því
skyni að laða fylgi frá flokki jafnaðarmanna. Helst minnir greining Hegels þó
á boðskap sænskra jafnaðarmanna á fyrri hluta tuttugustu aldar.5 Þeir töldu,
að ríkið yrði að búa þegnum sínum afkomuöryggi. Markaðurinn væri und-
irorpinn sveiflum, sem reyna ætti að jafna með opinberum afskiptum. Ríkið
skyldi vera fólki heimili, „folkhemmet,“ eins og leiðtogi jafnaðarmanna, Per
Albin Hansson, orðaði það 1928.6 Jafnaðarmenn sátu samfellt í ríkisstjórn í
Svíþjóð frá 1932 til 1976 og hrintu þá hugmyndum sínum í framkvæmd. Allir
Svíar öðluðust rétt til ellilífeyris frá ríkinu, þegar þeir höfðu náð 67 ára aldri,
óháð fyrra framlagi og eignum eða tekjum. Skipulagðar voru slysatryggingar
og sjúkratryggingar hins opinbera, en atvinnuleysistryggingar voru á vegum
verkalýðshreyfingarinnar. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga við fólk, sem orðið
hafði fyrir skakkaföllum, var einnig aukin. Seinna var stofnaður lífeyrissjóð-
ur allra Svía með skylduaðild, en lífeyrir úr honum var tengdur fyrri launum,
og kom hann til viðbótar hinum opinbera ellilífeyri.7
Tæpum tvö hundruð árum eftir að Réttarspeki Hegels kom út, erum við
reynslunni ríkari. Hegel ofmat mátt ríkisins til að skapa samkennd og tryggja
nauðsynlega aðlögun og taumhald. Þótt hann væri djúpsær hugsuður, hafði
hann enga haldbæra kenningu um, hvernig ríkið starfar í raun og veru.
Það er ekki málfundafélag, þar sem menn með göfugar hugsjónir skiptast
á skoðunum. Hætt er við því, að þar renni velferðaraðstoð ekki til þeirra,
sem helst þurfa hennar með, heldur hinna, sem hafa mest áhrif á valdhafa.
Millifærslurnar verða frá hagsmunahópum, sem eru fjölmennir, óskipulagð-
ir og lágværir, til dæmis skattgreiðendur og neytendur, til hinna, sem eru
fámennir, skipulagðir og háværir, til dæmis njótendur margvíslegra fríðinda.
Efnafólk, sem sækir reglulega leikhús, fær aðstoð ekki síður en langveik börn.8