Andvari - 01.01.2007, Blaðsíða 32
30
KRISTÍN ÁSTGEIRSDÓTTIR
ANDVARI
lauslæti, vændi og kynsjúkdóma. Óttast var að karlmenn myndu gera
sífellt meiri kröfur til kynlífsþjónustu kvenna. Það var viðtekin skoðun,
sem m.a. kemur fram hjá Katrínu Thoroddsen, að kynhvöt karla væri
mun sterkari en kynhvöt kvenna,85 og því óttuðust margar konur vax-
andi þvinganir og nauðung í kynlífi. Aðrir andstæðingar takmarkana
barneigna beittu trúarrökum, m.a. kaþólikkar, eða sögðu að þær hefðu
í för með sér óæskilega mannfækkun. Það átti ekki að grípa fram fyrir
hendur guðs og náttúrunnar. Ef eitthvað slíkt var gert var eina réttmæta
aðferðin sú að neita sér um kynlíf.86
Þeir femínistar sem mæltu með takmörkun barneigna og fræðslu um
kynlíf, og þeir urðu sífellt fleiri, bentu á nauðsyn takmarkana vegna
heilsu kvenna, nefndu mikinn barna- og mæðradauða og rétt kvenna til
að hafa stjórn á eigin líkama og þar með barneignum. í þeirra augum
var um að ræða sjálfsákvörðunarrétt kvenna og leið til að draga úr valdi
karla yfir konum.
Innan verkalýðshreyfingarinnar voru einnig mjög skiptar skoðanir
á takmörkunum barneigna. Annars vegar voru þeir sem litu á slíkar
aðgerðir sem enn eina leið borgarastéttarinnar til að halda verkalýðnum
niðri og koma í veg fyrir fjölgun hans. Einn fulltrúi þessa sjónarmiðs
sneri upphafsorðum Kommúnistaávarps þeirra Marx og Engels upp á
takmarkanir barneigna og sagði á þingi sósíalista árið 1913, að vofa færi
nú um Evrópu, vofa fæðingarverkfalls kvenna. Þá vofu yrði að kveða
niður.87 Baráttukonur eins og þær Clara Zetkin og Rosa Luxemburg
höfðu miklar efasemdir um kynfræðslu. Það átti að bylta þjóðfélaginu
og þá yrðu öll börn velkomin.
Aðrir verkalýðsforkólfar bentu á sömu rök og baráttufólk fyrir
fræðslu: heilsu mæðra, barna- og mæðradauða og endalaust brauðstrit
vegna stórrar fjölskyldu. Ekkert myndi bæta kjör verkalýðsins eins og
það að takmarka barneignir. Til yrði kröftugri verkalýðsstétt. Síðara
sjónarmiðinu óx sífellt ásmegin og þegar Sovétríkin urðu til, voru
heimilaðar fóstureyðingar, byggðar á sjálfsákvörðunarrétti kvenna. Sú
heimild var afnumin í valdatíð Stalíns.88
Fæðingatíðni lækkaði jafnt og þétt og eftirspurn eftir fræðslu jókst
stöðugt, hvað sem hugmyndafræðingar og leiðtogar sögðu. Fólk vildi
takmarka barneignir jafnt meðal borgara sem verkalýðs.