Menntamál - 01.12.1954, Page 81
MENNTAMÁL
115
gæta, að barn með talörðugleika sé ekki um of minnt á
vandkvæði sín og sérstöðu með því t. d. að láta það sitja
hjá eða telja það ekki hlutgengt til starfa. Á hinn bóginn
er málhöltu barni, sem fengið hefur nokkurn þroska og
skilning, hollt að gera sér fulla grein fyrir vandkvæðum
sínum og skapa sér hlutlæga afstöðu gagnvart þeim, í
stað þess að vera stöðugt að leitast við að dylja þau eða
leyna fyrir sjálfum sér og öðrum og gerast af þeim sökum
fátöluð og hlédræg.
Viðkomandi málhelti og málgöllum af líkamlegum og
starfrænum orsökum mætti benda á, að æfing í leikni
tungu og annarra talfæra skapar aukna getu. Sum börn
hreyfa of lítið tunguna, kjálkana, varirnar eða gómfilluna
þegar þau tala. Þau þurfa því að auka hreyfanleika og
leikni talfæranna, til þess að ráða við réttan framburð
ýmissa hljóða og hljóðasambanda. Það má gera með marg-
víslegum æfingum, „tunguleikfimi" o. fl. Einnig á móður-
málið sjálft sæg af ráðum til að æfa leikni talfæranna,
svo sem orðaleiki eða talþrautir, sem börn hafa gaman af
að glíma við. Þá hafa ljóð, rímur og þulur í sér fólginn
lækningamátt fyrir stirt tungutak, (t. d. stam).
Að lokum skal á það minnt, að fyrirmyndir þær, sem
börnin fá um mál og framburð í uppvextinum ráða mestu
um, hvernig málið verður síðar. Og góðar fyrirmyndir eru
í öllum tilfellum heppilegri og gefa betri raun en ávítur og
aðfinnslur.