Uppeldi og menntun - 01.09.1993, Page 22
FRÁ KRISTINSDÓMSLESTRl TIL MÓÐURMÁLS
sjálfsímynd, undirbyggja ákveðinn skilning á sögu og samtíð í anda þjóðfrelsis,
framfara og einstaklingshyggju.
Með tilkomu móðurmálskennslu í anda laganna 1907 og Lesbókar sem skyldu-
bundins lestrarefnis urðu tímamót í sögu barnafræðslu á Islandi; þau þýddu að
kristilegt efni, sem fram að þessu hafði verið notað mest til lestrarþjálfunar í skyldu-
námi barna, vék nú að mestu fyrir efni af veraldlegum toga. Kristilegt efni
skorðaðist upp frá þessu aðallega við tiltekna námsgrein, „kristin fræði". Þetta
hafði í för með sér mikla breytingu í átt til „sekúlariseringar" þess lestrarefnis sem
haft var um hönd í skyldunámi barna.
Til þess að gera sér fulla grein fyrir því hversu mjög staða kristinfræðiefnis
veiktist, miðað við það sem áður var, ber að hafa í huga að til viðbótar við Skóla-ljóð
og Lesbók komu nú senn kennslubækur í landafræði og sögu - og brátt náttúrufræði.
Raunar aðgreindust kennslubækur í sögu frá móðurmálsbókunum í því einu að
hinar fyrrnefndu lögðu þjóðernisboðskapinn fyrir á kerfisbundinn hátt, eftir reglu
tímatalsins (Loftur Guttormsson 1977). Að öðru leyti féllust bókmenntaþáttur og
söguþáttur móðurmálssviðsins í faðma: ættjarðarljóðin voru sett fram sem söguleg
sannindi, ef ekki opinberun, sem sögubókin - sambland af frásögum og Ijóðum -
uppfyllti með boðskap sínum (Bogi Th. Melsteð 1910; Eysteinn Þorvaldsson 1988:7-
8). I þessum skilningi má segja að með afmörkun móðurmálssviðsins hafi löggjöfin
1907 valdið afdrifaríkum hugmyndafræðilegum hvörfum í lestrarefni skólabarna.
Veraldleg gildi, tengd þegnskap og þjóðrækni, öðluðust nú yfirburða sess hjá hin-
um trúarlegu sem voru hér eftir bundin á bás einnar tiltekinnar námsgreinar.
20