Uppeldi og menntun - 01.09.1993, Blaðsíða 106
MÓÐURMÁLSKENNSLA Í VILLINGAHOLTSSKÓLA
starf nemenda var nánast ekkert, lítið reyndi á hugmyndaflug þeirra og það sem
verra var: þeir fengu naumast nokkurt tækifæri til að nota tungumálið!
Þrátt fyrir efasemdir mínar kom ég ekki auga á aðrar leiðir. Ég óttaðist reyndar
hálft í hvoru að breytingar á móðurmálskennslunni gætu þróast út í skemmdarverk
á okkar ástkæra, ylhýra máli. Það var svo á haustþingi 1989 að ég fór á fræðslufund
hjá kennurum í Olduselsskóla. Þar kynntu þeir þróunarverkefni í móðurmáls-
kennslu sem þeir höfðu staðið fyrir. Á þeim fundi sannfærðist ég um að það er hægt
að fara aðrar leiðir í móðurmálskennslu en ég hafði farið fram að þessu. Nokkru
síðar sama haust var málræktarvika í skólanum. Ég og samkennari minn ákváðum
að breyta að ráði áherslum í kennslu móðurmálsins. Þá viku tókum við upp daglega
ritun og lögðum meiri áherslu á lestur en áður hafði verið gert. Okkur þótti þetta
gefast svo vel að við héldum áfram með þetta starf.
Ég varð mér úti um nýjar bækur um móðurmálskennslu í Noregi, Bandaríkjun-
um og Bretlandi. Þar sá ég að móðurmálskennslan er víðar í athugun en á íslandi.
Rauði þráðurinn er aukin áhersla á að nemendur noti málið á virkan hátt. Þeir læra
það best með því að lesa mikið, skrifa mikið, tala og hlusta. Þær aðferðir sem þarna
voru kynntar virtist mér auðvelt að nota í aldursblönduðum hópum. í þessum bók-
um fann ég sem sagt ýmislegt nothæft. Snjóboltinn var farinn af stað og hann hefur
rúllað síðan og stækkað og stækkað. Snjórinn hefur að vísu verið misgóður og
stundum hefur hann ekki viljað tolla við boltann. Við höfum reynt ýmsar aðferðir
og hugmyndir, sumt hefur gefist vel en annað ekki.
KENNSLUTILHÖGUN
I viðmiðunarstundaskrá er að jafnaði gert ráð fyrir rösklega einni kennslustund á
dag í móðurmáli. Það fannst okkur of lítill tími. Við höfum því tekið þær kennslu-
stundir sem kallaðar eru ráðstöfunarstundir og bætt þeim við. Einnig höfum við
gert tilraunir með að kenna samfélagsfræði í lotum, þrjár til fjórar kennslustundir á
dag í nokkra daga. Það hefur þótt gefast ákaflega vel. Þá daga eru engir móðurmáls-
tímar en aðra daga fáum við meira svigrúm fyrir móðurmálskennsluna.
Fyrstu tvær kennslustundir hvers dags eru helgaðar móðurmáli. Nemendur 7.
bekkjar fá þó tveimur tímum minna á viku en aðrir því á stundaskrá hans eru komin
tvö erlend tungumál. Að jafnaði skiptast þessar tvær kennslustundir í þrennt.
Fyrstu 15-30 mínúturnar er fengist við mismunandi verkefni. Stundum eru umræð-
ur, t.d. um atburði líðandi stundar, stundum les kennari stutta sögu fyrir nemendur
og leggur fyrir þá lesskilningsverkefni, stundum segir kennari eða einhver nem-
enda sögu, orð dagsins er tekið fyrir,1 rætt um orðtök og málshætti eða farið í ein-
stök málfræðiatriði. Næstu 25-35 mínúturnar er ritun og að lokum er frjáls lestur í
15 mínútur. Á þessum tíma þarf kennari líka að láta þá nemendur lesa fyrir sig sem
þess þurfa.
Það sem tekið er fyrir í hverri kennslustund á að styðja hvað annað. Saga sem
1 Sbr. grein Baldurs Sigurðssonar, Á að kenna málfræði í skólum eða iöka hana? í Nýjum menntamdlum 3. tbl.
1992, bls. 35-36.
104