Tímarit lögfræðinga - 01.12.1998, Blaðsíða 80
12. gr. kpl. Hér verður greiðsluskylda skuldara ekki virk, fyrr en kröfuhafi hefur
kornið fram með áskorun um efndir, og getur það oft verið háð mati hverju
sinni, á hvorum samningsaðila hvílir frumkvæðisskylda í þessum efnum. Sjá til
athugunar H 1965 63, H 1967 707 og H 1971 525. Um handhafaskuldabréf
gildir t.d. sú regla, að greiðslustaður þeirra er hjá skuldara.56 Sjá t.d. H 1933
491, en þar sagði: „... því að um handhafabréf yfirleitt gildir sú regla, að ekki
verður talið, að skuldarar samkvæmt þeim séu skyldir að greiða fyrr en þeir eru
krafðir greiðslu, enda geta þeir fyrr hvorki vitað hverjum né hvar þeir eiga að
greiða, en í samræmi við þessa almenna reglu verður að skilja ákvæði þess veð-
skuldabréfs, sem hér um ræðir um gjalddaga“. Athugunarefni er í þessu sam-
bandi, hversu víðtæk tilkynningarskylda kröfuhafa er, þ.e. að hverjum hún þarf
að beinast, sbr. til athugunar um það efni H 1983 691. Ekki verður litið svo á,
að um vanefnd sé að ræða, ef skuldari efnir skyldu sína á gjalddaga eða afhend-
ingardegi, hvort heldur sem efnt er að undangenginni áskorun eða ekki. Áskor-
un, sem sett er fram um efndir á tímamarki, þegar samningur hefur ekki verið
vanefndur, telst samkvæmt því ekki beiting vanefndaheimildar.57
Samningur kann að geyma ákvæði um frumkvæði annars samningsaðila að
efndum. Þegar ekkert verður ráðið af túlkun samnings, verður að ætla, að áskor-
un sé ekki nauðsynleg, ef gjalddagi kröfu er ákveðinn í lögum, samningi eða
samkvæmt venju, eða þegar efndir kröfu eiga að gerast strax eða svo fljótt sem
verða má, sbr. sjónarmiðin að baki 12. gr. kpl. Hið sama gildir, þegar atvik
liggja svo til, að af þeim má ráða, hvenær greiða skal, og þegar skuldari getur
án atbeina kröfuhafa séð, hvenær hann á að efna.
Ef gjalddagi er hins vegar hvorki fyrir fram ákveðinn né auðvelt fyrir skuld-
ara að finna hann, kann áskorun að vera nauðsynleg.58
I vissum tilvikum getur áskorun verið ónauðsynleg. Hún er t.d. þýðingarlaus,
þegar skuldari hefur látið sig hverfa, skil greiðslunnar eru ómöguleg eða því
hefur áður verið lýst yfir, að greiðslan muni ekki verða innt af hendi. Einnig
þegar skuldari hefur gefið kröfuhafa það til kynna, að áskorun sé ónauðsynleg,
t.d. með því að tilkynna honum, að hann hafi þegar greitt eða muni greiða án
áskorunar.59
2.4.4.2 Áskorun sem forsenda fyrir beitingu vanefndaúrræða
Áskorunarreglur hafa í vissum tilvikum þýðingu við beitingu vanefndaúr-
ræða. Almennt er það að vísu svo samkvæmt íslenskum rétti, að heimild kröfu-
hafa til þess að beita úrræðum í tilefni vanefnda gagnaðila, er ekki háð því, að
kröfuhafi hafi áður skorað á skuldara að efna skyldur sínar réttilega. Þannig er
56 Henry Ussing: Obligationsretten, bls. 49.
57 Sjá Henry Ussing: Obligationsretten, bls. 60 og Bernhard Gomard: Obligationsret 2, bls. 35-
36.
58 Sjá nánar Henry Ussing: Obligationsretten, bls. 49.
59 Henry Ussing: Obligationsretten, bls. 49.
332