Tímarit lögfræðinga - 01.12.1998, Blaðsíða 101
Fyrir hvað á að refsa?
Hverjum á að refsa?
Hvernig á að refsa?
Hvers vegna á að refsa?
Svarið við fyrstu spurningunni liggur í markmiði lagasetningarinnar. I laga-
reglum er refsing lögð við tiltekinni hegðun, og hegðunin þar með gerð að af-
broti, til þess að gera þjóðfélaginu heyrinkunnugt að hegðunin sé óleyfileg og
til að tryggja að minna sé um slíka hegðun. Það er löggjafans á hverjum tíma
og í hverju ríki að leggja línurnar um það hvaða hegðun er óleyfileg. Refsilög-
gjöf í lýðræðisríkjum er réttlát þegar hún endurspeglar vilja og viðhorf meiri-
hluta þegnanna. Það er stjómvalda á hverjum stað og tíma að lesa í viðhorf
þegnanna til þátta eins og til dæmis frjálslyndis og íhaldssemi og setja réttlát
lög. Ekki verður því hér tekin afstaða frekar til þess fyrir hvað beri að refsa,
hvaða hegðun sé lýst óleyfileg. Markmið lagasetningarinnar getur þó varla eitt
og sér réttlætt beitingu refsinga.
Svarið við annarri spurningunni, hverjum á að refsa, má lesa úr skilgreining-
unni á hugtakinu refsing. Refsing verður að beinast gegn þeim sem talið er að
hafi brotið af sér. í siðuðum þjóðfélögum geram við auk þess kröfu um að lögin
séu réttlát og að þeim einum sé refsað sem bera ábyrgð á gerðum sínum.
Þriðju spurningunni, hvernig á að refsa, verður vart svarað án þess að áður
sé ljóst hvert markmið refsingarinnar er. Framkvæmd refsingarinnar og hversu
þung hún á að vera byggist annars vegar á refsipólitískum viðhorfum og tengist
lagasetningu í hverju þjóðfélagi á hverjum tíma og hins vegar á því hvað það er
sem réttlætir refsinguna, hvaða markmiði hún á að þjóna.
Svarið við fjórðu spurningunni eða öllu heldur leitin að svarinu við spurning-
unni, hvers vegna á að refsa, er það sem verður meginefni greinarinnar. Hvað
er það, ef það er nokkuð, sem réttlætir refsingu ríkisvaldsins yfirleitt?
2. RÉTTLÆTING REFSINGA
Refsing ríkisvaldsins er það úrræði sem notað er í þjóðfélagi okkar við lög-
brotum þótt fyrirbærið sé í eðli sínu og samkvæmt skilgreiningu slæmt. Menn
greinir þó á um hvað það sé sem réttlætt geti beitingu refsinga.
Þegar einhveijum er refsað er stundum sagt að réttlætið hafi náð fram að ganga.
Mat okkar á því hvort leggja eigi á refsingu eða ekki er órjúfanlega tengt hug-
myndum okkar um réttlæti. Réttlætistilfinning okkar segir okkur bæði að rangt sé
að refsa saklausum og að rangt sé að sekir sleppi við refsingu. Við krefjumst þess
að þjóðfélagið refsi aðeins þeim og öllum þeim sem með saknæmum hætti
hafa brotið gegn réttlátu Iagaákvæði. Refsing ríkisvaldsins er ekkert gamanmál.
Til þess að réttlæta beitingu refsinga þarf að finna ástæðu sem með trúverðugum
hætti getur sýnt fram á að með hana að leiðarljósi sé undir öllum kringumstæðum
tryggt að refsingu verði beitt þannig að fullnægt sé kröfum okkar um réttlæti.
Ymsar kenningar eru á lofti um réttlætingu refsingar og er efni þessarar
greinar að kynna þær kenningar sem helst er haldið fram, skoða rök með þeim
353