Tímarit lögfræðinga - 01.12.1998, Blaðsíða 93
meginreglu leiðir í fyrsta lagi, að það er tímamarkið, þegar greiðslan kemur til
kröfuhafa, sem ræður því, hvort greiðslan var innt af hendi á réttum tíma eða
ekki. í öðru lagi felst í þessu, að það er skuldarinn, sem greiðir sendingarkostn-
aðinn. Þá felst í þessu í þriðja lagi, að það er skuldarinn, sem ber áhættuna af
sendingunni, þar til hún er komin til kröfuhafa eða hún hefur verið færð inn á
reikning hans.82 Ef greiðsla er send með ávísun í pósti eða með því að nota
póstávísun, hefur greiðsla átt sér stað, þegar greiðslan eða póstávísunareyðu-
blaðið er komið til kröfuhafa, þó svo að kröfuhafi eigi þess ekki kost strax eða
samdægurs að ná peningunum út úr banka eða sparisjóði.83 Þegar greitt er inn
á banka- eða gíróreikning, er litið svo á, að greiðsla hafi átt sér stað, þegar bank-
inn eða gíróþjónustuaðilinn hefur fært greiðsluna inn á reikning kröfuhafa.
Greiðsla er talin hafa átt sér stað og skuldari þar með laus undan skuld-
bindingu sinni á því tímamarki, þegar greiðslan er komin til kröfuhafa. Um
skýringu á hugtakin komin til vísast til athugasemda við 2. og 7. gr smnl.
í athugasemdum við 2. gr. smnl. segir, að með orðunum komin til sé „... í samræmi
við það, sem hingað til hefur verið talið gilda, átt við það, að svarið sé komið þangað,
sem almennt má búast við, að tilboðsgjafi geti kynnt sér það, ef hann vill, t.d. bréf
afhent á heimili eða skrifstofu viðtakanda, látið í bréfakassa á hurð hjá honum eða í
pósthólf hans. Samþykkjanda er því ekki nóg að hafa sent svarið af stað áður en
fresturinn er liðinn. Hins vegar kemur svarið nógu snemma, ef það kemur til tilboðs-
gjafa, eins og áður var sagt, innan frestsins, þótt tilboðsgjafí kynni sér það eigi fyrr
en eftir að fresturinn er liðinn".
Hinar sérstöku reglur í 39. gr. smnl. og 61. gr. kpl. um, að móttakandi beri
áhættuna af sendingu tilkynningar í þeim tilvikum, þar sem tilkynningin er af-
hent tímanlega til flutnings með símskeyti eða pósti, eiga ekki við um allar
ákvaðir og gilda almennt ekki um greiðslur.
Með því að velja hentuga greiðsluaðferð er hægt að draga úr kostnaði við
sendingu greiðslu og minnka líkur á því, að greiðslan misfarist með einhverjum
hætti á leið sinni til kröfuhafa. Sending greiðslu tekur hins vegar ákveðinn tíma,
og þau tilvik geta komið upp, að greiðslu seinki vegna ófyrirséðra atvika.
Greiðslustaðurinn hefur þess vegna úrslitaþýðingu við mat á því, hvort greiðsl-
an var innt af hendi á réttum tíma eða hvort um greiðsludrátt er að ræða. Hér
verður að hafa í huga, að greiðsludráttur með peninga, þótt stuttur sé, er oft talin
veruleg vanefnd, sbr. dómar þeir, sem áður voru nefndir um heimild kröfuhafa
til þess að gjaldfella allar eftirstöðvar skuldabréfs, þegar vanskil verða á
greiðslu einnar afborgunar af mörgum. Má í raun segja, að greiðsludráttur pen-
ingaskuldbindinga sé almennt litinn strangari augum en greiðsludráttur annars
82 Sjá Ufr. 1934 836. Þar hafði tékki verið sendur sem greiðsla til kröfuhafa og tékkinn settur í
póstkassa við heimili kröfuhafa, þar sem honum var stolið. Eins og á stóð var talið, að tékkinn hefði
verið kominn til kröfuhafa, þ.e. á greiðslustaðinn, og bar því skuldari ekki ábyrgð á hvarfi hans.
83 Sjá um það efni Ufr. 1960 186.
345