Morgunn - 01.06.1936, Síða 18
12
MORGUNN
En áður en eg held lengra með það, að ræða við yður
um þessa starfsemi, vildi eg ör-stuttlega minnast á eitt
atriði, sem sameiginlegt er í guðspjalli dagsins í dag og
páskaguðspjallinu um Emmausgönguna. Það er atriði,
sem bendir til aukins skilnings á andlegleika upprisunnar,
ef svo mætti að orði komast, þ. e. a. s. á því, að upprisa
Krists er ekki annað en birting manns í andlegum líkama,
sem snöggvast yfirklæðist jarðnesku efni og verður mönn-
um sýnilegur. Að um slíkan atburð er að ræða, en ekki
um hinn eiginlega holdslíkama, sýna báðar þessar sögur.
í guðspjalli dagsins í dag kemur Jesús að luktum dyrum.
Það gerir enginn jarðneskur líkami. Á Emmaus-göngunni
virðist hann hafa komið álíka skyndilega, — þótt það sé
ekki greinilegt af frásögunni — og það er greinilegt, að
hann hverfur þeim skyndilega, þar sem hann situr að borði
með þeim. Orðin, sem Jóhannesarguðspjall leggur Jesú í
munn í grasgarðinum, er hann birtist Maríu Magdalenu:
„Snertu mig ekki“ (Jóh. 20, 17.), benda enn í sömu átt.
Það er alkunnugt af reynslu sálarrannsóknanna, að oft
eru líkamningar svo lausir, að þeir þola ekki snertingu.
Hitt þarf ekki að rekast á þetta, þótt vér finnum dæmi
þess, að stundum gátu lærisveinarnir þreifað á honum, og
hann neytti jafnvel matar og dryklcjar, einfi og kemur
fram í orðum Péturs til Kornelíusar: „Þann hinn sama
uppvakti Guð á þriðja degi, og lét birtast, ekki öllum lýðn-
um, heldur vottunum, sem áður voru af Guði kjörnir, oss,
sem átum og druklcum með honum, eftir að hann var ris-
inn upp frá dauðum“. (Post. 10, 40 n.). Það sýnir aðeins,
að líkamningin var misjafnlega fullkomin, og þekkja menn
einnig dæmi um álíka fastar líkamningar, að ekki sé minst
á mörg dæmi í þjóðsögum og þjóðtrú, sem að vísu eru
misskilin og úr lagi færð, en geta þó bygst á raunveru-
leika. Öll þessi dæmi má setja við hliðina á því, þegar
Kristur birtist Páli úti fyrir Damaskusborg, en bæði hann
og aðrir virðast sammála um það, að þar hafi verið um
að ræða birtingu í andlegum líkama.