Saga - 1993, Qupperneq 92
90
HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON
3
Nokkrir Islendingar hafa tekið til máls um stjórnmálahugmyndir
Machiavellis og margir fleiri vafalaust fylgt þeim í verki.46 Fyrst er
þess að geta, að tveir íslenskir fræðimenn hafa sett saman rit um
Machiavelli. Dr. Matthías Jónasson prófessor varð innlyksa í Þýska-
landi í síðari heimsstyrjöld og tók þá saman nokkra kafla úr ritum
Machiavellis og gaf út í eins konar sýnisbók, Machiavelli. Mensch und
Staat.47 í eftirmála segir Matthías, að í verkum Machiavellis sé innri
spenna eða þversögn: Hann hafi annars vegar lagt stjórnmálamönn-
um lífsreglur, bent þeim á þau vinnubrögð, sem best gæfust, hins
vegar velt þeirri spurningu fyrir sér, hvernig ríki yrðu sterk og þrótt-
mikil, og þá komið fram sem eldheitur þjóðernissinni, ekki hlutlaus
stjórnmálaskýrandi. Reynslan hefði enn fremur kennt honum, að í
stríði dygði járn betur en gull. Hin auðuga Flórensborg hefði átt í stök-
ustu vandræðum með að leggja undir sig Pisu. Þótt sú borg væri
miklu fámennari, vörðust íbúarnir af öllu afli. Dr. Gunnar Pálsson
sendiherra reit doktorsritgerð um nokkra fyrstu kafla Furstans við
Háskóla Nýju Jórvíkurfylkis í Buffalo í Bandaríkjunum árið 1985.48
Þar heldur Gunnar því fram, að Furstinn sé ristur rúnum, sem fræði-
menn þurfi að ráða. Boðskapur Machiavellis hafi verið svo róttækur á
sínum tíma, svo andstæður hefðbundnum klassískum og kristilegum
kenningum um eðli og hlutverk ríkisvalds, að klæða hafi þurft hann í
dulbúning. Samkvæmt kenningu Machiavellis, eins og Gunnar skýrir
hana, eru náin tengsl á milli ríkisvalds og hernaðar: Ríkið er í eðli
sínu árásargjarnt. Það er eins og rándýr. Þótt vafalaust finnist sumum
lesendum sitt hvað langsótt í ritgerð Gunnars, er hún skrifuð af mikl-
um lærdómi og hugkvæmni.
Rit þeirra Matthíasar Jónassonar og Gunnars Pálssonar um Machia-
velli vísa ekki ,til íslenskra stjórnmála. Tveir aðrir fræðimenn hafa
hins vegar tengt kenningu Machiavellis við stjórnmál hér á landi. Dr.
46 Auk þess, sem hér er nefnt á eftir, má geta þýddrar greinar eftir Sigurd Hoel um
Machiavelli, „Biblía stjórnmálamanna," í Iðumii (1927), 324.-339. bls.
47 Insel Verlag, Leipzig 1940.
48 Gunnar Pálsson: „War and the State in the Prince of Machiavelli" (fjölrituð dokt-
orsritgerð). Þess má geta, að Gunnar birti grein í Morgunblaðinu 11. janúar 1983,
„Súpa í grautinn", þar sem hann hélt því fram, að nafni sinn Thoroddsen, þá
forsætisráðherra, væri lærisveinn Machiavellis.