Saga - 1993, Page 175
173
BISKUPASÖGUR HINAR NÝJU
að viðurkennast að Gylfa Gröndal er nokkuð þröngur stakkur skor-
inn í þessu efni. Helgi forsetaembættisins á íslandi leyfir tæpast mjög
gagnrýna umfjöllun eða nærgöngula um þá einstaklinga sem því hafa
gegnt. Forsetinn á að vera sameiningartákn, hafinn yfir flokkadrætti
og deilur. Það er kannski þess vegna sem Gylfi gerir enga tilraun til
að skýra inngöngu Ásgeirs Ásgeirssonar í Alþýðuflokkinn. Á hvaða
hátt höfðu lífsskoðanir Ásgeirs breyst þegar hann kaus að ganga til
liðs við stjórnmálaflokk sem hann hafði keppt við í kosningum í ára-
raðir?5 Og hvers vegna var meirihluti kjósenda reiðubúinn að fylgja
þingmanni sínum í þessum hamskiptum - skipti stéttapólitík kannski
ekki eins miklu máli á þessum tíma í stjórnmálunum og stundum er
haldið fram? Ekki reynir Gylfi heldur að skýra hvernig Ásgeiri Ás-
geirssyni tókst að breytast í eins konar uppreisnarmann gegn áhrifum
stjórnmálamanna í forsetakosningum árið 1952. Þessir menn „skilja
ekki hið sérstaka eðli forsetakosninga", sagði Ásgeir sjálfur um and-
stæðinga sína meðal stjórnmálamanna (Ásgeir Ásgeirsson, bls. 343). „En
almenningur hefur séð til sólar - bændur, sjómenn, iðnaðarmenn,
verkamenn og aðrar stéttir", skrifaði frambjóðandinn sem hafði starf-
að í stjórnmálum í áratugi, setið á þingi í nær þrjá áratugi, gegnt mikil-
vægustu ráðherraembættum á íslandi, verið forseti sameinaðs þings
fyrir Framsóknarflokkinn og hlotið embætti bankastjóra út á pólitíska
stöðu sína. Þetta hlýtur að teljast ein merkilegasta þverstæða stjórn-
málasögu 20. aldar á íslandi og reyndar merki um talsverða pólitíska
snilli.
Ollu meira gustar af Hermanni Jónassyni í lýsingum Indriða en af
Ásgeiri í meðförum Gylfa Gröndals. Indriði tæpir á flestum þeim
málum sem fundin hafa verið Hermanni til hnjóðs, allt frá kollumáli
til meðferðar á málefnum gyðinga á tímum nasista í Þýskalandi.
Aldrei finnur Indriði þó óhreint mjöl í pokahorni Hermanns og er
hann merkilega glámskyggn á tiltölulega augljóst samhengi í biturri
haráttu í stjórnmálum við upphaf 4. áratugarins. í málaferlunum gegn
^agnúsi Guðmundssyni haustið 1932, þar sem Hermann dæmdi
5 I þessu sambandi er athyglisvert að þeir sem töldu sig róttæka framsóknarmenn í
byrjun kreppunnar fundu Ásgeiri það helst til foráttu að hann væri of hallur und-
>r „íhaldið", en ekki er að sjá að hann hafi verið bendlaður við Alþýðuflokkinn á
þeim árum; sbr. Steingrímur Steinþórsson, Sjálfsævisaga I (Reykjavík: Örn og Ör-
!ygur, 1979), bls. 196-7 og 209-24.