Hugur - 01.06.2009, Blaðsíða 58
56
Ásta Kristjana Sveinsdóttir
bragðakenningin gerir kynferði að náttúrulegu fyrirbæri (þar sem eitthvað í mann-
eskjunni sjálfri veldur því að brugðist er við henni á hann hátt sem við á, frekar en
að það sé samspil líkamlegra og félagslegra þátta), fremur en félagslegu, og erfitt
er að sjá hvernig gildi og hefðir eiga að koma þar við sögu. Vísun í gildi og hefðir
eru hins vegar eitt það helsta sem félagsgerðarsinnar leggja áherslu á þegar skýra
á fyrirbæri eins og kynferði. Það lítur þess vegna þannig út að viðbragðakenningin
sé ekki eins vel í stakk búin til að gera grein fyrir félagsgerð eins og veitingakenn-
ingin.
Skilgreiningarkenning5 um eiginleika er þannig að viðkomandi hlutur eða pers-
óna hefur eiginleikann ef hún uppfyllir skilyrðið eða skilyrðin sem skilgreiningin
á eiginleikanum segir til um.6 Tökum dæmi um eiginleikann að vera rangstæður.
Samkvæmt skilgreiningarkenningu um rangstöðu þá felst það að vera rangstæður
í því að vera markmegin við útileikmennina, alveg óháð því hvort dómarinn dæmir
rangstöðu eða ekki. Formúlan er svona:
x telst vcray við aðstæður A
Dœmi: að vera markmegin við útileikmenn telst vera að vera rangstæður
í fótboltaleik.
Samkvæmt veitingakenningu um rangstöðu, eins og áður kom fram, er það að vera
rangstæður fótboltaeiginleiki sem dæmdur er af dómaranum, þar sem hann hefur
að viðmiði staðsetningu leikmannsins á vellinum.
Það skiptir auðvitað ekki máli í þessu samhengi hvaða kenningu við aðhyllumst
hvað varðar rangstöðu og ég er ekki að halda því fram að veitingakenningin um
rangstöðu sé endilega sú sem við ættum að aðhyllast. Það sem skiptir máli er að
lesandinn átti sig á muninum á þessum þremur kenningum. Vel er hugsanlegt að
best sé aðhyllast viðbragðakenningu um liti eða skilgreiningarkenningu um rang-
stöðu, en engin rök skulu færð fram um það hér. Þegar kemur að félagslegum
eiginleikum finnst mér hins vegar sá galli á skilgreiningarkenningu að viðkomandi
manneskja hefur félagslega eiginleikann ef hún uppfyllir skilyrðin, alveg óháð því
hvort hún er álitin uppfylla skilyrðin eður ei. Þvert á móti held ég að það sem
skipti máli þegar um félagslegan veruleika er að ræða sé það hvort maður sé talinn
uppfylla ákveðin skilyrði, ekki hvort maður gerir það í raun og veru. Það að við
séum álitin uppfylla skilyrði ræður því hvernig fólk kemur fram við okkur, ekki
hvort við uppfyllum þau í raun og veru.
5 Við getum túlkað kenningar Johns Searle í Ihe Construction ofSocialReality (New York: Free
Press, 1997) á þennan hátt.
6 Samkvæmt annarri útgáfu að skilgreiningarkenningu þá hefúr viðkomandi eiginleikann ef
hann uppfyllir eitt eða fleiri af skifyrðunum (t.d. „nógu mörg“ af þeim).