Árbók VFÍ/TFÍ - 01.06.2003, Page 304
Endurnýjun eða nýbygging?
Allt frá því að ákvörðun um smíði nýrrar Norrænu var tekin var ljóst að ráðast þyrfti í
verulegar endurbætur í Seyðisfjarðarhöfn til þess að ferjan gæti haft þar viðkomu. I því
viðfangi kom tvennt til álita; að endurbæta gömlu ferjuaðstöðuna eða byggja nýja á
öðrum stað.
Gamla ferjuaðstaðan á Seyðisfirði, sem Smyrill og eldri Norræna notuðu, er í fjarðarbotn-
inum, norðan Fjarðarár, og var þetta mannvirki byggt árið 1970. Viðlegukanturinn þar er
150 m að lengd og við hann er 6,5 til 7,0 m viðlegudýpi. Breidd innsiglingarrennunnar er
um 50 m frá viðlegukantinum. Bryggjuþekjan er steinsteypt og nær um 15 m frá bryggju-
kanti en þar tekur við malbikað svæði. Auk þess að gagnast ferjusiglingunum hefur þessi
aðstaða, Hafnarbryggjan, verið notuð af vöruflutningaskipum og einstöku sinnum hafa
togarar landað þar fiski beint í gáma.
Til þess að unnt væri að nýta þá hafnaraðstöðu sem fyrir var á Seyðisfirði fyrir hina nýju
ferju hefði þurft að auka viðlegudýpi hafnarinnar og breikka innsiglingarrennuna úr 50 m
í um 75 m. Stálþilið var hins vegar komið til ára sinna og var auk þess ekki nægilega langt
til að leyfa meira dýpi en þegar var við viðlegukantinn. Var því ljóst að setja yrði nýtt
stálþil framan við það sem fyrir var. Einnig lá fyrir að endurnýja þyrfti ekjubrú, setja nýja
stormpolla og koma fyrir a.m.k. fjórum svonefndum „fenderum" eða höggdeyfum ásamt
festingum utan á viðlegukantinum. Grynningar eru sunnan Hafnarbryggjunnar og var
talið nauðsynlegt að setja þar upp fjóra svonefnda „einbúa" en það eru staurar sem
stöðva rek skipa. Þessu til viðbótar hefði þurft að bæta við uppfyllingu fyrir bílastæði
sunnan hafnarinnar.
Ljóst var frá upphafi að ýmis torleysanleg tækni- og skipulagsvandamál myndu fylgja
því að breyta svo gömlu hafnaraðstöðunni að hún nýttist nýju ferjunni. Meðal annars lá
fyrir að erfitt yrði að tengja landgang nýju ferjunnar við þær byggingar sem fyrir voru á
svæðinu. Menn virtu fyrir sér þann kost að reisa tengibyggingu af einhverju tagi á
hafnarsvæðinu, en ljóst þótti að hún myndi rýra notagildi svæðisins tilfinnanlega fyrir
aðra starfsemi og þar sem undirlendi er takmarkað á Seyðisfirði og akstursleiðir voru
vanbúnar að taka við þeirri umferð sem ferjunni fylgdi þótti þessi kostur ekki fýsilegur.
Það skipti einnig máli að mestur hluti Hafnarbryggjunnar og bakland hennar er á
snjóflóðahættusvæði en við flutning ferjuaðstöðunnar þangað sem hún hefur nú verið
byggð upp varð til bygginga- og athafnasvæði sem er um 6,5 hektarar að stærð og er þar
engin hætta á að snjóflóð falli.
Talið var af sérfræðingum Siglingastofnunar og Seyðisfjarðarhafnar að kostnaður við að
endurnýja Hafnarbryggjuna og tengd mannvirki þannig að þau svöruðu kröfum er
gerðar voru vegna nýju ferjunnar myndi slaga hátt í kostnað við að byggja upp aðstöð-
una frá grunni á nýjum stað. Var lauslega áætlaður kostnaður við endurnýjun talinn á bil-
inu 350 til 400 milljónir króna, eða um 150 til 200 milljónum króna undir kostnaði við
nýbyggingu, en sýnt þótti að seinni kosturinn myndi skila mun betra og notadrýgra
mannvirki auk þess sem ávinningur væri af því landi sem ynnist við uppfyllingu á nýjum
stað. A móti kom að tíminn sem endurnýjun tæki yrði að líkindum eitthvað styttri en sá
tími sem nýbygging myndi taka.
Að lokum var komist að þeirri niðurstöðu að hagstæðast yrði að byggja nýja ferjuaðstöðu
frá grunni á öðrum stað þar sem ekki væri hætta á snjóflóðum. Auk ferjulægisins með
hafnarbakka og landgangi og þjónustuhúsi varð að ráðast í gerð all-umfangsmikilla
umferðarmannvirkja, þar á meðal byggingu nýrrar brúar á Fjarðará til að tengja ferju-
lægið við þjóðvegakerfið.
300i Árbók VFl/TFl 2003